132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[16:34]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Tillagan eins og hún var lögð fram í fyrra var ekki um leiðina frá Skagafirði til Þingvalla. Samgönguáætlun samgönguráðherra fjallaði um þann hluta leiðarinnar sem er frá Húsafelli til Þingvalla og er samþykkt á Alþingi þannig að það er ekki inni í þessum tillögum, alls ekki. Það er vegagerð sem þegar hefur verið ákveðin.

Sú nýja vegagerð sem þessi tillaga kallar á er annars vegar upp Hvítársíðuna, nokkur kafli sem hvort eð er verður að leggja og síðan eins og ég sagði vegur sunnan Blöndulóns í Skagafjörð. Það getur vel verið þegar þar kemur sögu eftir fimm, sex eða sjö ár, þegar menn svara þeirri spurningu hvort þeir vilji leggja í þessa framkvæmd sem einkahlutafélag að menn sjái ekkert því til fyrirstöðu að taka alla leiðina úr Skagafirði ef dráttur verður á því að ráðist verði í Kjalveg, um það skal ég ekki segja. Hér er eingöngu um rannsókn að tefla. Ég er að óska eftir því að ráðist verði í fullnægjandi rannsóknir til að menn geti áttað sig á því hvort skynsamlegt sé eða fært að leggja veg um Stórasand í Borgarfjörð úr Skagafirði. Um það snýst þetta mál og annað ekki.

Það kemur hins vegar á óvart t.d. varðandi Vaðlaheiðargöng að menn skulu treysta sér til að fara í þau og fá þá ekki nema 500 millj. úr ríkissjóði. Það er einkaframkvæmd sem mér finnst sjálfsagt að ráðast í fyrst heimamenn vilja bera svo mikinn hluta af byrðinni.