132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[16:46]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það sé algerlega skýrt að það frumvarp sem hér um ræðir og síðan það frumvarp sem verður unnið í umhverfisráðuneytinu um vatnsverndina eiga ekki að skarast. Þess vegna er engin ástæða til að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga eins og ég veit að iðnaðarráðherra hefur margsinnis skýrt hér í umræðunum.

Hvað snertir síðan markmiðið, 1. gr. frumvarpsins, þá finnst mér það vera mjög göfugt markmið: „… skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Hér í umræðunni var líka nefnt að haft hefði verið samráð við Umhverfisstofnun sem hafði gert athugasemdir við frumvarpið á fyrra stigi. Ég bendi þingmönnum á þær breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu og þeirra veigamest er breytingin í 35. gr. Það er annars vegar reglugerð sem iðnaðarráðherra hefur samráð við umhverfisráðuneytið um, þar sem sett eru nánari fyrirmæli um framkvæmd tilkynningarskyldu o.fl. Síðan líka í 35. gr., þar sem fjallað er um skilyrði fyrir framkvæmdum og starfsemi sem talin eru nauðsynleg af tæknilegum ástæðum að það er heimild Orkustofnunar til að setja slíkt skilyrði, hún nær ekki til starfsemi og framkvæmda á friðlýstum svæðum sem háðar eru leyfi Umhverfisstofnunar. Þetta eru veigamestu atriðin.