132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:44]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa farið vítt og breitt um völlinn í umræðunni í dag. Ég hef kallað sumar ræður sem hv. þingmenn hafa haldið hér lýðskrum, lýðskrum því að þær hafa að mestu leyti ekki fjallað um efnisatriði þessa frumvarps. Ég vil fá það á hreint hjá hv. þingmanni, af því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa látið að því liggja að almannaréttur muni skerðast gagnvart aðgengi að neysluvatni eða frjálsri för um vötn, hvort það liggi í þessu frumvarpi hér, hvort við séum að ræða um það að verið sé að skerða hér réttindi almennings, sem ég tel ekki vera og hef farið yfir í andsvörum mínum fyrr í dag. Ég vil fá svar við þessari spurningu.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að kveinka mér undan því að Framsóknarflokkurinn og framsóknarmenn séu gagnrýndir í þessari umræðu. Til marks um umræðuna þá held ég að Framsóknarflokkurinn hafi oftar verið nefndur á nafn en vatnið sjálft í þessari umræðu. Þó erum við að ræða um vatnalög. Það má hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vera ljóst að við framsóknarmenn munum standa vörð um þann eignarrétt sem hefur myndast á umliðnum öldum, ekki síst með tilkomu vatnalaganna árið 1923. Við munum standa vörð um þau réttindi bænda og annarra landeigenda sem þeir hafa áunnið sér í gegnum árin. (Gripið fram í: Hvaða annarra landeigenda?)

Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala hér um eignaupptöku. Þeir vilja sjá þá breytingu að íslenska vatnið verði almannaeign eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan. Hvernig eigum við hv. þingmenn að skilja þann málflutning á annan veg en að það eigi að fara í stórfellda eignaupptöku hringinn í kringum landið með þvílíkum afleiðingum og þjóðfélagsbreytingum sem það mundi leiða af sér? Hæstv. forseti, guð forði okkur frá því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs komist í meiri hluta og í ríkisstjórn.