132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:02]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Athyglisvert er að hæstv. iðnaðarráðherra og félagar hennar úr Framsóknarflokknum, hv. þingmenn nokkrir sem hér hafa talað, hafa tekið upp þá varnartaktík í þessu máli að snúa því upp í einhvers konar hugmyndafræðilega deilu milli Framsóknarflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er útmáluð sem nýkommúnismi en Framsóknarflokkurinn standi hins vegar í sínum gömlu sporum og styðji bændur.

Ég er ekki vanur að bera blak af þeirri umræddu hreyfingu svo sem, en ég tel nú að þetta sé ákaflega ósanngjarnt gagnvart þeim þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hér hafa talað. Það að setja það fram úr hugmyndafræði sem átti við eiginlega fyrir tíma kalda stríðsins að annaðhvort séu menn einkaeignarsinnar eða þjóðnýtingarsinnar, eins og það var orðað hér af framsóknarmönnum og reyndar af sérstökum vini Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, sem kom ráðherranum til bjargar og Framsóknarflokknum til varnar fremur óvænt, sú uppstilling á hlutunum er svo gamaldags að eiginlega er alveg furðulegt að menn skuli draga hana hér upp.

Það er sorglegt, forseti, að Framsóknarflokkurinn — og reyndar Sjálfstæðisflokkurinn líka, það er kannski eðlilegra með Sjálfstæðisflokkinn — skuli vera á þeirri skoðun gagnvart rétti manna til eignarnýtingar eða -umráða að þar sé einungis um að ræða einkaeignarrétt einstaklings eða fyrirtækis annars vegar og hins vegar einhvers konar þjóðnýtingu, einhvers konar ríkiseignarrétt í sovéskum stíl. Samt er þetta sá flokkur sem gert hefur stjórnarsáttmála við Sjálfstæðisflokkinn, sem við erum kannski ekki hrifin af ýmis hér, en eitt er þó gott í honum og við höfum verið að reyna að fá það fram að því sé fylgt, og það er að setja ákvæði um sameign fiskimiða, þjóðareign, í stjórnarskrá.

Hvað er sú eign? Er það einkaeign ríkisins? Það finnst mér furðulegt að sé vegna þess að menn hljóta að hafa hugsað það öðruvísi. Eignarrétturinn er nefnilega ekki svona einfaldur eins og þeir hv. þingmenn Birkir Jón Jónsson og Sigurður Kári Kristjánsson hafa sameinast um að telja, heldur er að sjálfsögðu til eins konar sameign þjóðarinnar yfir ákveðnum hlutum. Sú eign þjóðarinnar sem Þingvellir heita er auðvitað allt öðruvísi eign þjóðarinnar en ráðherrabíll hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Það þarf ekki neinar óstjórnlegar gáfur til að sjá að það getur ekki verið sami eignarrétturinn sem yfir því ríkir. Það er það sem a.m.k. við samfylkingarmenn — og fleiri, að ég hygg þegar ég heyri vini mína úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tala, eigum við, þ.e. að það sé viðurkennd þjóðareign, sameign þjóðarinnar á vatni. Er það fersk og frumleg hugmynd? Það fer allt eftir því hvernig á það er litið.

Í lögum sem enn gilda nr. 15 frá 20. júní 1923, vatnalögum, segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Það er að vísu ekki sérstaklega í vatnalögunum fjallað um eignarréttinn en orðanna hljóðan og allt umhverfi sem þessi lög draga upp, öll sú mynd sem þau lög draga upp gera ráð fyrir því, alveg eins og eldri lög sem konungar settu, alveg eins og Jónsbók, alveg eins og lagasafnið í Grágás, sem þjóðveldismenn, áar okkar hinir elstu sem íslenskir geta kallast, settu sér, að vatnið sé ekki einkaeign nokkurs manns heldur fylgi landareigninni ákveðinn nýtingarréttur, ákveðinn umráða- og hagnýtingarréttur. Það er þetta sjónarmið vatnalaganna, nr. 25/1923, Jónsbókar og Grágásar sem við stjórnarandstæðingar erum að verja.

Við segjum enn fremur að þróun í nútímanum og ný hugsun í lagasetningu í öðrum löndum eigi að leiða til þess að við förum yfir vatnalögin á öfugan hátt við það sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert, að við eigum að gæta almannaréttarins fyrst og fremst og að við eigum að skoða vatnalögin í því ljósi hvar hægt kunni að vera að draga úr óþarfri einkaeign, m.a. vegna þess, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni, að staða þjóðfélagsmála, ég er sammála því í greinargerðinni, og samfélagsins er önnur núna en 1923.

Árið 1923 sammæltust menn um að fela bændastéttinni með nokkrum hætti, sem þá var sterk og voldug og var flestöll í flokki sem hét Framsóknarflokkurinn og var einu sinni til sem slíkur og stóð þá undir nafni, henni var í rauninni falin ákveðin umsýsla og aðgæsla þessarar sameignar þjóðarinnar. Nú er það því miður ekki lengur svo, eins og ég sagði, í 1. gr. Bændur eiga að vísu töluvert af landi enn sem betur fer en ýmsir aðrir aðilar eru óðum að eignast það land sem bændur áttu áður. Þó að ég hafi ekkert á móti því að menn eignist land — og gaman væri nú að eiga land og hafa hagnýtingarrétt á vatni sem þar kæmi upp — þá eru þeir auðvitað að því fyrst og fremst í gróðaskyni umfram það sem bændur hugsa, sem líta á landið með öðrum hætti þó að þeir vilji auðvitað hafa af því nokkurn hag að eiga það. Málið snýst um þetta og þess vegna eru spurningar Sigurðar Kára Kristjánssonar og Birkis Jóns Jónssonar og fleiri háttvirtra framsóknarmanna í umræðunni út í hött.

Svo er önnur varnartaktík framsóknarmanna og kom fram í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz, sem því miður er farin, að spyrja: Af hverju er þetta breyting? En Jónína Bjartmarz sýndi þessari umræðu ekki þá virðingu að vera við hana frá upphafi og er nú farin, vegna þess að það var nákvæmlega rakið a.m.k. í máli mínu og ég held margra annarra sem hér voru.

Sú breyting sem um ræðir er frá 2. gr., sem ég las upp úr vatnalögunum sem gilda, og yfir í 4. gr. í frumvarpinu sem heitir Eignarréttur að vatni — orð sem aldrei kemur fyrir í vatnalögunum — og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Nú er ég ekki hálærður í lögum en ég tel að það víki öðruvísi við með hina jákvæðu skilgreiningu eignarumráða eða hvað það á að kalla heldur en þá neikvæðu. Dómstólarnir hafa vissulega lögjafnað og túlkað vatnalögin á þann hátt að réttur landeiganda sé töluvert mikill. En það er þó þannig að þingið getur snúið því við og það getur gert það með lagi án þess að því fylgi fébætur eða annað ámóta. Það er viljayfirlýsing þingsins og breyting þess á vatnalögunum frá 1923 sem þar skiptir máli og yfirskyggir þá túlkun eða óskráðu reglur sem fylgt hafa í kjölfarið.

Ég rakti það líka og vísaði m.a. til Umhverfisstofnunar hvernig í tveimur atriðum er alveg augljóst að hér er ekki bara formbreyting á ferðinni. Annars vegar vegna þess að undir þessu frumvarpi liggur miklu fleira en lá undir vatnalögunum. Í fyrsta lagi ýmis form á vatni, í öðru lagi grunnvatn sem sett er beinlínis undir vatnalögin og þá skiptir minna máli hvort það er undir lögunum frá 1998 vegna þess að það sem við ættum núna að vera að gera er að fjarlægjast þá skilgreiningu sem var 1998 í staðinn fyrir að slá henni fastri.

Í öðru lagi að hugsanlega er nýting annars konar á vatni en nú tíðkast. Þá mundi hún vera núna landeigandanum og vatnseigandanum heimild en væri það ekki samkvæmt vatnalögunum frá 1923, sem við ættum að taka upp í núverandi löggjöf óbreytta hvað þessa eign varðar.

Gjarnan vildi ég tala meira um þetta og var með miklu lengri ræðu en það er því miður ekki unnt svo ég geymi það til framtíðar. En ég verð að segja að lokum að á sama hátt og þetta frumvarp er framsóknarráðherranum Valgerði Sverrisdóttur ekki til sæmdar, hafa umræðurnar heldur ekki verið Framsóknarflokknum, hinum fornfræga bændaflokki, til sæmdar.