132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:16]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Niðurlæging íslenskra stjórnvalda í þessu máli er alveg hrikaleg. Eftir að hafa lýst yfir stuðningi við Bandaríkjamenn við innrásina í Írak taka Bandaríkjamenn sér leyfi til að fljúga með fanga yfir land okkar til að fara með í ólögleg fangelsi sem þeir eru með einhvers staðar í leynum. Og það er nöturlegt, það kom einmitt frétt í fjölmiðlum í gær eða fyrradag þar sem bandaríski herinn var að finna leynifangelsi í Írak sem var þar á vegum stjórnvalda. Þeir þyrftu líklega að nota þessa sömu hermenn til að leita uppi sín eigin leynifangelsi og koma þessum málum á hreint gagnvart heiminum hvernig þeir haga sér. Þetta er auðvitað slík niðurlæging fyrir stjórnvöld á Íslandi að ekkert nema krafa og að henni verði fylgt eftir til enda um að fá að vita hvað hefur gerst á þessum tíma er ásættanlegt. Það er ekki hægt að sætta sig við annað en að fá að vita þetta. Síðan verða menn að taka afstöðu til þess hvernig á að bregðast við í framhaldi af því.