132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Tvöföldun Vesturlandsvegar.

198. mál
[14:16]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hvenær hefjast framkvæmdir við tvöföldun Vesturlandsvegar frá Skarhólabraut að Langatanga í Mosfellsbæ og hvenær er áætlað að þeim ljúki?“

Ef menn vildu sleppa létt frá þessu væri kannski hægt að segja að þessar framkvæmdir eru þegar hafnar, að nokkru er lokið við þær. Engu að síður er svar mitt þetta: Eins og fyrirspyrjandi þekkir hefur verið unnið að miklum endurbótum á þjóðvegi 1 frá gatnamótum Víkurvegar/Vesturlandsvegar allt upp að gatnamótum við Langatanga. Í samgönguáætlun fyrir árið 2003–2014 eru áætlaðar 220 millj. kr. til breikkunar umrædds vegarkafla á öðru tímabili, þ.e. á árunum 2007–2010. Þá er ég að tala um kaflann frá Skarhólabrautinni upp að Langatanga. Vegkaflinn er um 1,2 km að lengd og hefur Vegagerðin nýlega endurmetið kostnað við breikkunina sem er nú áætlaður um 300 millj. Þess ber að geta í þessu samhengi að nú þegar hafa verið gerðar endurbætur til bráðabirgða á þessum kafla milli hringtorganna með styrkingu vegaxla þannig að nú er þessi tiltekni vegur þrjár akreinar, þ.e. tvær til Mosfellsbæjar og ein til Reykjavíkur. Vonir standa til þess að þessi bráðabirgðaendurbót leysi verulega úr þeim vanda sem hér er við að etja en auðvitað vakna spurningar um hvernig til tekst með föstudagsumferðina út úr bænum á sumrin.

Í samræmi við vegalög er gert ráð fyrir að bæði samgönguáætlun til lengri tíma, þ.e. 12 ára, og samgönguáætlun til fjögurra ára verði endurskoðuð á Alþingi veturinn 2006–2007. Gera má ráð fyrir að fjárveiting til breikkunar hringvegarins milli Skarhólabrautar og Langatanga verði ákveðin við þá endurskoðun þannig að allt blasir við okkur á þann veg að við sjáum fram á að þessum framkvæmdum ljúki áður en langt um líður.

Aðeins vegna þess sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni vegna fyrirspurnarinnar þá vil ég geta þess að það hefur aldrei komið annað til greina að mínu mati en að þessi leið, alla leið upp að vegamótum Þingvallavegar, yrði með tveimur akreinum í hvora átt hvað sem Sundabraut líður að öðru leyti. Ég hef hins vegar látið þau orð falla að ég teldi ekki skynsamlegt að tvöfalda Vesturlandsveginn eða hringveginn alla leið fyrir Kollafjörð og upp að Hvalfjarðargöngum ef við sjáum fram á Sundabrautina. Ég tel að við eigum að leggja áherslu á að tvöfalda þetta alla leið upp að Þingvallaafleggjaranum og gera það sem fyrst og þegar samgönguáætlun gefur okkur tækifæri til þess til þess að greiða þarna fyrir umferð. En ég tel að þær framkvæmdir, þessar miklu og mikilvægu framkvæmdir í gegnum Mosfellsbæinn sem stórbæta umferðarflæði og afkastagetu brautarinnar, séu mikil bragarbót og það þekkjum við sem förum þarna um nær daglega margir hverjir og oft á dag sumir. Ég held nú að Mosfellingar geti mjög vel við unað þessar vegaframkvæmdir og raunar allir þeir sem nýta sér þetta samgöngumannvirki.