132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Verð á heitu vatni.

259. mál
[19:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé í raun og veru svo að ýmislegt sé ógert í sambandi við þessi mál. Við erum alltaf að reyna að bæta umhverfið, m.a. í sambandi við hitaveiturnar. Engin lög eru í gildi á Íslandi um hitaveitur sem er ekki til fyrirmyndar, en það er eitt af því sem er í undirbúningi í ráðuneytinu að undirbúa frumvarp til hitaveitulaga. Ég vonast til að áður en mjög langt um líður líti þau dagsins ljós.

Ég sagði áðan að innan skamms verður reiknivél sett á vef Rariks þar sem notendur á hverju upphitunarsvæði Rariks munu geta reiknað út hitunarkostnað sinn fyrir mismunandi húsnæði. Slíkur samanburður er þó háður vitneskju um hitastig á vatni inn í íbúðarhús og/eða afslátt af vatnsgjaldi vegna hitafalls í dreifikerfi o.s.frv. Þetta er væntanlegt.

Ég ítreka svo að orkusparnaður er eitthvað sem við Íslendingar höfum kannski ekki tileinkað okkur mjög mikið. Nú á að stofna til orkusparnaðarseturs og verður það gert í samstarfi við Evrópusambandið. Ég vonast til að með því getum við vakið fólk til umhugsunar um hvort það geti ekki á einhvern hátt sparað orku. Enda þótt við búum við mikla orku hér á landi og höfum kannski verið alin þannig upp að ekki sé ástæða til að að hugsa um sparnað þá er það er eitt af því sem lögð er áhersla á í öllum löndum og við megum ekki vera eftirbátur annarra á því sviði. En ég var ánægð að heyra að hv. þingmaður er klár á því að það stefnir í ráðstefnu um þetta málefni.