132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Staða framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun.

120. mál
[12:33]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mál standa þannig að enn er reiknað með að sú tímaáætlun sem legið hefur fyrir muni standast. Auðvitað vona ég sannarlega að svo verði.

Það var athyglisvert að heyra orð fulltrúa Samfylkingarinnar í þessari umræðu, sem gáfu það til kynna að Samfylkingin styddi ekki þetta verk. Það er náttúrlega ekki í samræmi við það sem maður heyrir hjá fulltrúum Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi sem reyna að ná (MÁ: Viltu ekki svara spurningunni?) pólitískum ágóða af þeim miklu framkvæmdum sem eiga sér stað fyrir austan og hinni miklu uppbyggingu sem þar á sér stað.

Í sambandi við það áhættumat vegna mats á umhverfisáhrifum, sem ég talaði um í ræðu minni, að það verði endurskoðað, þá tel ég það vera góð vinnubrögð og ekkert nema gott um það að segja. Það er þannig með svona stórframkvæmdir, hvar sem þær eru í heiminum, að eitthvað af rannsóknunum fer fram á verktíma, m.a. vegna umhverfisáhrifa er ekki hægt að rannsaka allt til hlítar áður en hafist er handa. Þetta eru hlutir sem við þekkjum og eru ekki séríslenskt fyrirbæri.

Ég vil halda þinginu upplýstu um þetta. Ég tel mjög eðlilegt að þessi fyrirspurn hafi komið fram og mun leggja mig fram um að svara fyrir það mikla verk sem þarna er í gangi þegar hv. þingmenn óska frekari svara.