132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Viðbygging við sjúkrahúsið á Selfossi.

133. mál
[13:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er reis ágreiningur á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og heilbrigðis- og fjármálaráðuneytis hins vegar um túlkun á samkomulagi sem gert var 4. desember 2002 um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Ágreiningurinn snýst um 15% þátttöku sveitarfélaga í byggingu heilbrigðisstofnana. Í 3. tölulið samkomulagsins er gert ráð fyrir að ríkið yfirtaki 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði, meiri háttar viðhaldi, tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildarsjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.

Þrátt fyrir undirritað samkomulag hefur fjármálaráðuneytið krafið sveitarfélögin um greiðsluþátttöku vegna byggingar sjúkrahúsa, t.d. á Siglufirði, í Fjarðabyggð og í sveitarfélaginu Árborg. Kröfurnar byggir ráðuneytið á því að þrátt fyrir samkomulagið frá 2002 og breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2003 sé sveitarfélögunum skylt að taka þátt í stofnkostnaði sjúkrahúsa sem að hluta eru einnig með hjúkrunarrými fyrir aldraða, en allir vita að slíkt fyrirkomulag er algengt.

Sveitarfélagið Árborg telur að verið sé að svíkja það samkomulag sem gert var 2002 um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og leitaði álits lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga. Niðurstaða hans er skýr, að greiðsluskylda hvíli ekki á sveitarfélaginu hvað varðar byggingu sjúkrahússins. Árborg hefur engu að síður greitt þær fjárhæðir sem fjármálaráðuneytið krafðist því annars hefðu framkvæmdir við sjúkrahúsbygginguna stöðvast. Greiðslurnar voru og eru með fyrirvara og þátttöku sveitarfélagsins í samkomulagi um að þessi ágreiningur sem er milli ráðuneyta og sveitarfélaga verði settur í gerðardóm ef hann hefði ekki verið leystur fyrir 1. nóvember 2004. Síðan þá er liðið heilt ár og því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur ágreiningur um skiptingu kostnaðar milli ríkisins og sveitarfélagsins Árborgar vegna viðbyggingar við sjúkrahúsið á Selfossi verið leystur? Ef svo er, á hvern hátt? Ef ekki, hver er tillaga hæstv. ráðherra að lausn deilunnar?