132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Viðbygging við sjúkrahúsið á Selfossi.

133. mál
[13:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa áhyggjum mínum yfir þeim svörum sem hæstv. ráðherra lagði fram fyrir þingið vegna þess að samkomulagið fól í sér að gerðardómur yrði skipaður 1. nóvember 2004. Núna er komið fram yfir miðjan nóvember 2005 og hæstv. ráðherra segir að nýbúið sé að skipa þennan gerðardóm sem eigi að vísu að ljúka störfum fyrir áramót. En það þýðir að á meðan verður sveitarfélagið Árborg að taka þátt í greiðslum við uppbyggingu á sjúkrahúsinu á Selfossi þrátt fyrir að það sé sameiginleg niðurstaða sveitarfélaganna, lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga, að sveitarfélaginu beri ekki að inna þessar greiðslur af hendi. Það var einungis skrifað undir þetta samkomulag vegna þess að annars hefðu byggingarframkvæmdirnar stöðvast. Menn skrifuðu undir í trausti þess að gerðardómur yrði skipaður strax 1. nóvember 2004.

Þetta er þvílíkur seinagangur hverjum sem um er að kenna, hvort sem það er Samband íslenskra sveitarfélaga eða ráðuneytið sem hafa dregið lappirnar í málinu. Þessi mikli dráttur hefur alla vega bitnað mjög harkalega á sveitarfélögunum. Það hafa komið ályktanir m.a. frá sveitarfélaginu Árborg, frá bæjarstjórninni, þar sem bæjarstjórn Árborgar lýsir furðu sinni á seinagangi og krefst þess að tekið verði á málinu. Sú samþykkt er síðan í haust eða sumar.

Það er þó alla vega skref í rétta átt ef gerðardómur á að fara af stað núna, en ég verð, virðulegi forseti, að lýsa furðu minni bæði á kröfu fjármálaráðuneytis og seinagangi á því að leysa málið gagnvart sveitarfélögunum, því að samkomulagið sem gert var um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga var gert árið 2002.