132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:22]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við höfum nú lokið meginumfjöllun um fjárlög við 2. umr. og göngum til afgreiðslu á þeim breytingartillögum sem við frumvarpið eru. Því miður er ekki ástæða til þess þetta árið að ætla að fjárlögin gangi neitt betur eftir en undangengin ár en eins og menn þekkja hefur verið viðvarandi gríðarleg skekkja frá frumvarpinu annars vegar að niðurstöðunni hins vegar og verður að harma það almenna agaleysi sem er í framkvæmd fjárlaganna. Við heitum á nýjan hæstv. fjármálaráðherra að reyna að gera þar bragarbót á frá því sem var í tíð hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Geirs Haarde.

Einkenni þessa fjárlagafrumvarps er annars vegar skortur á aðhaldi og hins vegar skattalækkanir til okkar, hátekjufólksins í samfélaginu. Það er nú svo komið að hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson hefur á einum áratug ásamt félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum aukið skattbyrði hinna lægst launuðu í landinu um heil mánaðarlaun á ári en létt sköttum af okkur, hátekjufólkinu í landinu um heil mánaðarlaun á ári. Sú misskipting er farin að ógna þeirri samstöðu og þeim einhug sem lengi hefur einkennt íslenskt samfélag. Þess vegna flytur Samfylkingin tillögur um öðruvísi skattalækkanir sem miða að því að lækka matarverð í landinu og hækka persónuafsláttinn og kemur þá þeim best sem lakasta hafa afkomuna. En auk þess eru þar tillögur um að bæta hag lífeyrisþega, styrkja menntakerfið og efla velferðarkerfið. Þó að tillögur okkar séu aðeins táknrænar þá skila þær samt 4 milljörðum meiri afgangi en tillögur ríkisstjórnarinnar vegna þess að útgjaldaþenslan í þessu frumvarpi sýnir að þessi ríkisstjórn hefur setið allt of lengi við völd. Það er engin snerpa eftir í henni til þess að taka á einu eða neinu í ríkisrekstrinum. Útgjöldin velta fram ár frá ári eins og snjóbolti niður brekku og hlaða utan á sig gæluverkefnum á bæði borð, þörfum og þarflausum og þegar þenslunni lýkur verður þessi mikli útgjaldavandi það sem ný ríkisstjórn jafnaðarmanna þarf að taka á sem og misskiptingunni í landinu.

Við munum taka nokkrar tillagna okkar til atkvæða í dag en draga aðrar til 3. umr. en sitja hjá við tillögur ríkisstjórnarinnar enda verður hún ein að bera ábyrgð á þeim fjárlögum sem hún ber fram.

Áður en gengið er til atkvæðagreiðslu vil ég fyrir hönd okkar fjárlaganefndarmanna Samfylkingarinnar færa samstarfsfólki okkar í fjárlaganefndinni og formanni hennar okkar bestu þakkir fyrir gott og farsælt samstarf í nefndinni.