132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:50]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Forseti. Ég trúi ekki mínum eigin augum þegar ég sé öll þessi rauðu ljós því að ég er að mæla fyrir breytingartillögu sem er nákvæmlega í samræmi við þingsályktunartillögu sem þingmenn Framsóknarflokksins og reyndar fleiri flokka undir forustu hv. þm. Hjálmars Árnasonar, formanns þingflokks framsóknarmanna, og með formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Magnúsi Stefánssyni, innan borðs. Og ég er líka að mæla fyrir breytingartillögu sem er í nákvæmu samræmi við landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um að jafna skuli ferðakostnað íþróttafélaga í landinu. Þessi tillaga hv. þingmanna hefur verið endurflutt þing eftir þing en þegar kemur síðan að því að gera eitthvað í málinu sem er sáraeinfalt og snýst um einfaldan hlut, peninga, til að jafna þennan kostnað þá virðist þetta ætla að fara heldur illa.

Ég spyr: Hvar er metnaður manna fyrir sjálfum sér að gera ekki eitthvað í þessum málum og hversu lengi þarf að brýna járnið til að það bíti eitthvað eða er það borin von?