132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Húsnæðismál.

343. mál
[12:10]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

Frumvarpið er í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar til félagsmálaráðherra þann 17. mars síðastliðinn. En nefndin var skipuð fulltrúum ríkis og sveitarfélaga.

Í 3. lið tillagna nefndarinnar er lagt til að varasjóði húsnæðismála verði heimilað að auka rekstrar- og söluframlög vegna félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga og aðstoða við úreldingu þeirra. Lagt er til að framlögin komi til greiðslu á árunum 2005, 2006 og 2007. Framlögin nemi 280 millj. kr. á ári eða alls 840 millj. kr. á tímabilinu.

Um útfærslu segir í tillögum nefndarinnar að fjármögnun komi af höfuðstól varasjóðs viðbótarlána. Þessi breyting felur því ekki í sér útgjöld fyrir ríkissjóð. Varasjóður viðbótarlána, sem er tilkominn vegna framlaga frá sveitarfélögum samhliða veitingu viðbótarlána, er ætlað að bæta einstök tjón sem Íbúðalánasjóður verður fyrir vegna útlánatapa á viðbótarlánum og vegna kostnaðar við uppboðsmeðferð eigna sem á hvíla viðbótarlán.

Í lok árs 2004 hætti Íbúðalánasjóður að veita viðbótarlán og hefur sjóðurinn því ekki orðið fyrir nýjum skuldbindingum frá þeim tíma. Þvert á móti hafa skuldbindingar sjóðsins minnkað ört undanfarna mánuði vegna uppgreiðslna viðbótarlána.

Um síðustu áramót var staða útistandandi viðbótarlána rétt tæplega 21 milljarður kr. Á sama tíma var eigið fé varasjóðs viðbótarlána rúmar 1.300 millj. kr. eða sem nemur um 6,2% af útistandandi viðbótarlánum. Þann 30. september síðastliðinn hafði það hlutfall hækkað í 9–10% að teknu tilliti til vaxtatekna sjóðsins og tapaðra viðbótarlána á árinu og staðan batnað sem því nemur.

Samkvæmt úttekt sem unnin var fyrir varasjóð viðbótarlána fyrr á þessu ári er óhætt talið að lækka eigið fé sjóðsins þannig að hlutfall þess af útistandandi viðbótarlánum verði á bilinu 3–4%. Það er því ljóst að eigið fé sjóðsins er langt umfram það sem sérfræðingar telja nauðsynlegt vegna skuldbindinga hans. Fjölmörg sveitarfélög glíma við rekstrarvanda í félagslega húsnæðiskerfinu og í tillögum tekjustofnanefndar er lagt til að ráðgjafarnefnd varasjóðs húsnæðismála verði heimilað að ganga á eigið fé varasjóðs viðbótarlána til að taka á þeim vanda með auknum rekstrarframlögum eða aðstoð við fækkun íbúða með sölu á almennum markaði. Tekið skal fram að um þetta ríkir full sátt við sveitarfélögin og er raunar um að ræða tillögu fulltrúa sveitarfélaga í tekjustofnanefnd sem stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur einnig samþykkt.

Hæstv. forseti. Í tillögum tekjustofnanefndar er enn fremur lagt til að rammasamkomulag ríkis og sveitarfélaga sem vísað er til í ákvæði til bráðabirgða VIII við lögin verði framlengt um þrjú ár, eða til ársins 2009. Samkomulagið felur í sér 60 millj. kr. árlegt framlag ríkissjóðs til verkefnis varasjóðs húsnæðismála. Kostnaðaraukning vegna þessa fyrir ríkissjóð nemur alls 180 millj. kr. á þessu tímabili. Á sama tíma munu sveitarfélög inna af hendi 20 millj. kr. á ári í sama tilgangi.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.