132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[18:16]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þar sem hann tók nokkuð á þeim álitaefnum sem hér hafa komið upp. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra nefndi hér að samráðsnefnd fulltrúa aðila vinnumarkaðarins muni fara yfir stöðuna þegar aðlögunartímanum lýkur varðandi þau átta af tíu nýjum aðildarríkjum ESB sem nú eru háð kröfu um atvinnuleyfi og það falli úr gildi 1. maí nk. Hæstv. ráðherra leggur áherslu á að lagt verði mat á það hvaða áhrif þessi opnun hafi á vinnumarkaðinn og ég tel mikilvægt að félagsmálanefnd fái að fylgjast með því vegna þess að ráðherrann nefndi að þetta mundi liggja fyrir fljótlega eftir áramótin.

Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra að ekki þurfi að taka á vinnuveitendaábyrgðinni með skýrari hætti en gert er í frumvarpinu, þ.e. hvort ekki þurfi að skoða sameiginlega bæði ábyrgð notendafyrirtækisins og starfsmannaleigunnar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað á að gera ef í ljós kemur að notendafyrirtæki taki þátt í því að hagnast á því að erlent starfsfólk sé misnotað? Það er ekkert sem tekur á þessu ákvæði í frumvarpinu og þeim mun mikilvægara er að skýra og styrkja upplýsingaskyldu til að mynda til stéttarfélaganna varðandi kjör erlenda vinnuaflsins og að trúnaðarmenn geti sannreynt upplýsingar um launagreiðslur. Það er ekkert sem kveður skýrt á um það í þessu frumvarpi og ég spyr hæstv. ráðherra um það.

Loks vil ég líka spyrja hvort hæstv. ráðherra telji ekki að liggja þurfi skýrar fyrir hvernig hægt sé að ganga úr skugga um hvort erlendar starfsmannaleigur og forsvarsmenn þeirra uppfylli ákveðnar skyldur um ábyrgð og skyldur sínum við opinbera aðila eins og skattskyldu sem við nefndum (Forseti hringir.) áðan.