132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stefna stjórnvalda í alþjóðasamstarfi gegn vá af völdum loftslagsbreytinga.

[16:07]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Við Íslendingar höfum tekið mjög skýra afstöðu í stuðningi okkar við Kyoto-bókunina. Þar höfum við skipað okkur á bekk með Norðurlöndunum og öðrum Evrópulöndum. Það er til fyrirmyndar að við getum án erfiðleika staðið við okkar hlut og það er enginn ágreiningur á milli okkar hv. þm. og fyrrverandi umhverfisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, varðandi þessi mál. Stefnan hefur ekki breyst.

Ég minni líka á að það var í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar sem Íslendingar gerðust aðilar að Kyoto-bókuninni. Mér finnst því eins og þingmenn séu að reyna að snúa hlutunum við, ég átta mig ekki alveg á því hvað þeim gengur til. Hins vegar er mjög gott fyrir mig að fara með það veganesti sem þessar umræður fela í sér í dag, í rauninni er mjög ánægjulegt að fá að taka þátt í þeim.

Ég nefndi áðan áherslur umhverfisráðherra Kanada, sem er í forsæti á fundinum. Hann telur að í þeim grundvelli sem byggja eigi á í Montreal eigi að felast að þátttaka í aðgerðum verði breiðari en nú er, sem felur þá í sér að stórríki á borð við Bandaríkin og stóru þróunarríkin, Indland og Kína, verði með til að árangur geti náðst. Á þetta höfum við Íslendingar einnig lagt áherslu enda má heita augljóst að án víðtækari samstöðu næst aldrei viðunandi árangur. Stefna íslenskra stjórnvalda er því mjög skýr.

Samstilltar aðgerðir þjóða heims eftir 2012 verða að megna að snúa þróuninni við. Það skiptir ekki meginmáli hvaða leið verður valin heldur hitt að um hana náist víðtæk sátt sem tryggi framhaldið og tryggi að það sjáist fyrir endann á aukningu gróðurhúsalofttegunda (Forseti hringir.) í andrúmsloftinu.