132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:41]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Þingforseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður ítrekaði var hér um þverpólitískt mál að ræða og hv. þingmaður var líka flutningsmaður að og skiljanlegt að hann fylgist grannt með framkvæmdinni þegar málið er komið hingað inn á þingið og ég er viss um að það er sameiginlegur vilji allra þingmanna að gera úrbætur á frumvarpinu eins og það liggur fyrir. Ég ítreka það líka að það er mjög mikilvægt að vinna þetta mál núna í meðferð félagsmálanefndar í góðu samráði við þá sem við þetta eiga að búa eins og félagið Umhyggju og ég er sannfærð um að formaður nefndarinnar, sem situr hér í salnum, Siv Friðleifsdóttir, mun sannarlega sjá til þess að við munum ná farsælli lendingu í þessu máli. Það eru miklir annmarkar á þessu frumvarpi og við reynum að ná sameiginlega ásættanlegri niðurstöðu þannig að þinginu sé sómi að því þegar það afgreiðir þetta mál frá sér, vonandi sem allra fyrst.