132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:41]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Þetta var furðuleg uppákoma hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem sakaði hæstv. menntamálaráðherra um það að hafa með einhverjum óeðlilegum hætti fjallað um frumvarp um Ríkisútvarpið hf. í Kastljósi sjónvarpsins í gær áður en málið hefur verið lagt fram á Alþingi. Hún sakaði hæstv. ráðherra um það að með þessu gerði ráðherrann að engu samstarf og samráð við stjórnarandstöðuna í þessu máli eða öðrum sem varða fjölmiðla. Ég hlýt að mótmæla svona málflutningi.

Ég veit ekki betur en að aðrir ráðherrar, hvort sem þeir koma úr þessari ríkisstjórn eða öðrum, hafi kynnt sín mál efnislega í fjölmiðlum áður en þeim hefur verið dreift á Alþingi. Ég veit ekki til þess að þingmenn (Gripið fram í: Það er svona.) Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi verið mjög hræddir við það að fjalla efnislega um sín eigin frumvörp og þingsályktunartillögur í fjölmiðlum hvað eftir annað áður en þingheimur hefur fengið tækifæri til að kynna sér efni þeirra. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur ekkert skirrst við það að kynna í fjölmiðlum efni einstakra þingmála sem þau hyggjast leggja fram, m.a. áður en þing hefur komið saman. Og það er ekkert að því. Þetta eru bara venjuleg vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið á Alþingi, ekki bara á þessu ári eða þessu kjörtímabili heldur svo lengi sem elstu menn muna. Uppákomur sem þessar eru algerlega óskiljanlegar og ég veit ekki betur en að þessu frumvarpi verði dreift á þingi í dag og þá getur hv. þingmaður kynnt sér það nánar. Þau vinnubrögð sem hæstv. menntamálaráðherra viðhafði í þessu máli og kom fram með í fjölmiðlum eru mjög eðlileg og (Forseti hringir.) það er ekkert út á þau að setja.