132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:09]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill nú svo til að ég mér hefur gefist kostur á oftar en einu sinni að ræða við þann ágæta prófessor, Stefán Ólafsson. Ég ber mikla virðingu fyrir honum. Segi þó satt og rétt frá þessari skýrslu vegna þess að það kemur fram í textanum hvað eftir annað, hann er ekkert að leyna sínum skoðunum. Ég hef haldið því fram, virðulegi forseti, að ég kunni ekki þær aðferðir og þekki ekki það þjóðfélag þar sem hægt er að hafa bótakerfi sem er hærra og meira og betra en það sem framleiðsluatvinnuvegirnir geta greitt sínu verkafólki. Ég skil það ekki hvar við ætlum að lenda þá. Ég hef verið á móti því og tala um það alveg hreinskilnislega, ég hef verið á móti því. Ég tel að við eigum að búa að verkafólki landsins eins vel og við getum, gera allt til þess að íslensk framleiðsla standi sem föstustum fótum og í sem bestu umhverfi til að kjör fólksins geti batnað. Ég hef talið að það væri eina leiðin til þess að lyfta þeim upp sem þurfa á bótum að halda að bæta kjör verkamanna.