132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér eru greidd atkvæði um aukin fjárframlög til þriggja opinberra háskóla, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskólans. Hæstv. menntamálaráðherra hélt því fram í ræðu á Alþingi í gær að Háskóli Íslands væri flaggskip æðri menntunar á Íslandi. Um það erum við sammála. En hvers vegna er það ekki viðurkennt í fjárlögum næsta árs?

Við vitum öll að ef Háskóli Íslands fengi hlutfallslega sömu hækkun fjárveitinga og þeir skólar sem mesta hækkun fá núna yrði rekstur hans í góðu jafnvægi á næsta ári. Við erum að tala um 370 millj. Stjórnarandstaðan leggur til að Háskóli Íslands fái þessar 370 millj. og raunar 130 millj. að auki til að standa straum af kostnaði við fjölgun doktorsnema. Við leggjum líka til að Háskólinn á Akureyri fái viðurkenningu fyrir það mikla og öfluga starf sem þar hefur verið til staðar og fái 100 millj. kr. í aukafjárveitingu og að Kennaraháskóli Íslands fái svipaða viðurkenningu, aukafjárveitingu upp á 150 millj. kr. Ég segi já.