132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:24]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil af þessu tilefni, um leið og ég tek undir þá gagnrýni sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kom með fram, taka fram að í gær var fullur vilji fyrir því hjá starfsmönnum þingsins og hæstv. forseta að taka þessa fyrirspurn á dagskrá. Því miður voru svörin ekki tilbúin frá hæstv. ráðherra eða ráðuneyti við þessari tilteknu fyrirspurn.

Það getur auðvitað komið fyrir að það sé erfiðleikum bundið að svara fyrirspurn innan átta sólarhringa frá því að hún er lögð fram, en þá er það líka jafnsjálfsögð kurteisi að hæstv. ráðherrar láti viðkomandi fyrirspyrjanda vita af því hverju sinni. Því miður kom í ljós þegar við fórum yfir fyrirspurnirnar sem fyrir lágu í gær að býsna margar þeirra voru lagðar fram í október og hafa enn ekki fengið svör. Ég held að það sé full ástæða fyrir hæstv. forseta að taka það saman og senda viðkomandi hæstv. ráðherrum áminningarbréf um að það eigi að fara að þingsköpum nema sérstakar aðstæður liggi að baki, eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur skýrt núna hvað varðar þessa fyrirspurn.