132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

118. mál
[16:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn. Hér er um sjálfsagt réttlætismál að ræða og manni sýnist þetta eiga að vera svo lítið mál fyrir hæstv. ráðherra að hafa forgöngu um að þessu verði kippt í liðinn.

Samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga. Jú, hæstv. ráðherra á auðvitað að geta gengið fram fyrir skjöldu og reynt að ná því samkomulagi sem allra fyrst því mér finnst ekki eðlilegt að maður láti svona mál dankast eftir að búið er að benda á það víða að, að leiðrétta þurfi í sjálfu sér réttindi fólks. Fólk verður að fá að búa við svipuð réttindi burt séð frá því hvorum megin við sveitarfélagamörk viðkomandi á heima. Ég hvet því hæstv. ráðherra, og tek undir hvatningu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að taka nú á honum stóra sínum og leiðrétta þetta, vera ekki að lúra neitt á þessu heldur bara kippa málinu í liðinn. Annað væri óeðlilegt. Þetta er sjálfsagt réttlætismál sem þarf að leiðrétta strax.