132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Verslunaratvinna.

345. mál
[14:11]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum (fylgiréttargjald). Nefndarálitið er á þskj. 547 og þar kemur fram hverjir komu fyrir nefndina, hverjir skiluðu umsögnum og það að markmiðið með frumvarpinu sé að innleiða listmunauppboðsákvæði tilskipunar Evrópusambandsins og ráðsins, um rétt höfunda til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt).

Við umfjöllun málsins kom fram það sjónarmið að óeðlilegt væri að ríkið innheimti sem skatt fjármuni sem renna eiga til einkaaðila. Jafnframt var því velt upp hvort umfang innheimtunnar væri svo lítið að kostnaður vegna hennar stæði ekki undir tekjunum.

Þá var gerð tillaga sem kemur fram í nefndaráliti, þ.e. rætt var um að breyta reglugerðarheimild og taka burt að hafa þyrfti samráð við ákveðinn aðila, heldur talað um hagsmunaaðila.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Kristján L. Möller, Ásta Möller, Ögmundur Jónasson, Siv Friðleifsdóttir og Lúðvík Bergvinsson.

Frú forseti. Ég vildi gjarnan geta þeirrar skoðunar minnar að ég tel mjög óeðlilegt og jafnvel ekki samrýmast stjórnarskránni að ríkið innheimti sem skatt gjöld eða fjárhæðir sem síðan renna til einkaaðila eins og hér er um að ræða. Þegar menn kaupa listaverk og selja þau síðan sem eign sína kynni maður að halda að þeir ættu þessa eign og þyrftu hugsanlega að sæta því að borga höfundarréttargjöld til listamannsins — ríkið á ekki að koma inn í það að innheimta þau höfundarréttargjöld fyrir listamanninn, ekkert frekar en ríkið kemur ekki inn í þegar innheimt eru alls konar gjöld sem menn eiga rétt á í þjóðfélaginu. Í stjórnarskránni er kveðið mjög nákvæmlega á um skatta, hvernig leggja eigi á að skatta. Það má eingöngu gera með lögum og að sjálfsögðu eiga skattar að renna til ríkis og sveitarfélaga. Það er mjög óeðlilegt að ríkið sé notað, og sá styrkur sem innheimta ríkisins hefur til skattheimtu, þegar hinar innheimtu fjárhæðir renna síðan til einkaaðila, einkafyrirtækja eða samtaka slíkra aðila.