132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:55]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er um að ræða frumvarp til laga að formi til en innihald þess er í rauninni viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar og væntanlega stjórnarmeirihlutans sem verður þá staðfest hér með atkvæðum hans að minnsta kosti. Um þessa viljayfirlýsingu er í sjálfu sér ekki mikið að segja. Hún er komin fram fyrir nokkru og hefur fengið þá umræðu og gagnrýni sem henni bar. Ég kem hins vegar upp til að taka þátt í þeirri umræðu sem hér var fyrr um Sundabrautarkafla þessarar viljayfirlýsingar og ég vil eins og aðrir sem tóku þátt í henni þakka forsætisráðherra fyrir skýr svör. Fyrir þau svör að ekki sé um að ræða nein skilyrði í þessari viljayfirlýsingu um sérstaka leið sem Sundabraut eigi að fara til að hún fái það fé sem hér er um rætt og er á valdi ríkisstjórnarinnar fram til vors 2007, vegna þess að þá tekur við önnur ríkisstjórn, hvernig sem hún verður.

Ég tel að forsætisráðherra hafi líka haft mjög góð orð um framhaldið. Ég tek undir það að við verðum að skoða verkið allt. Í upphafi skyldi endinn skoða, eða endirinn skoða, segir í íslensku máltæki. Við eigum að klára þetta verk sem allra fyrst. Það var nokkuð rætt um veggjöld í þeirri umræðu og forsætisráðherra virtist hrifinn af þeirri hugmynd. Nefndi það sem nátengt einkaframkvæmd á þessari leið. Ég held að það sé bara inni í framtíðinni og kannski varla á færi núverandi ríkisstjórnar að ákveða það á þeim stutta tíma sem hún í sjálfu sér á eftir og hefur nóg að gera við að klára þennan fyrri áfanga. En um einkaframkvæmdina vil ég segja að ef menn geta sýnt fram á að það sé góð leið og hagkvæm þá er auðvitað ekkert á móti henni. Menn eiga ekki að festa sig í að vera á móti hugtökum jafnvel þeim orðum sem byrja á einka- eða félags- eða hvað sem það er.

Um veggjaldið verður hins vegar að segja að það er auðvitað ekki nátengt þessasri einkaframkvæmd. Það kom ágætlega í ljós í umræðu sem hér fór fram um daginn í fyrirspurnatíma, að ég hygg, við Sturlu Böðvarsson, hæstv. ráðherra, um svipaða hluti. Það kom fram hjá honum að veggjald kæmi vissulega til greina á Sundabraut og þá — öfugt við það sem ég tel reyndar hafa verið misskilning síðasta ræðumanns — taldi samgönguráðherra að það yrði aðeins einu sinni rukkað á samanlagðri leiðinni Hvalfjarðargöng–Sundabraut. En samgönguráðherra talaði líka um svokallaða skuggagjaldaleið, þ.e. að einkaframkvæmandinn fengi greitt fyrir þann bílafjölda eða farartækjafjölda sem æki um göngin á ári eða hvaða tímaeiningu sem menn notuðu um það. Þannig að ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli.

Aðalerindi mitt hingað var að fagna yfirlýsingu forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar að ég tel. Hún er gríðarlega mikilvæg vegna þess að auðvitað hafa orðið meiri tafir á þessu máli en vera skyldi. Það hefur ekki hjálpað því fram á veginn að ríkisstjórnin hefur verið sein að ákveða sig og sumir ráðherrarnir, þar á meðal samgönguráðherra hæstv., hafa dregið nokkuð lappirnar í þessu. Maður sem stendur utan ríkisstjórnar og borgarstjórnar getur ekki varast þá hugsun að þetta sé að kenna ákveðnum vandræðagangi sjálfstæðismanna í ríkisstjórninni og í borgarstjórninni þar sem flokkspólitísk afstaða hefur um of ráðið fram yfir þá hagsmuni sem hér er um að tefla, bæði fyrir Reykvíkinga og nærsveitarmenn þeirra, eða Vestlendinga og Vesturland og Norðvesturland allt og auðvitað alla landsmenn. Því framkvæmd af þessu tagi, sem tengir höfuðborgarsvæðið hið stærra aðra leiðina við landið, er auðvitað feikilega arðbær og mikil framkvæmd. Það sem nú hefur gerst, því ber að fagna líka, er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið sinnaskiptum í þessu máli. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni bindur sig ekki lengur við innri leiðina heldur tók þátt í einróma samþykkt borgarráðs um daginn. Mig minnir að það hafi verið 2. desember sem borgarráð skoraði á ríkisstjórnina að falla frá öllum skilyrðum um leiðir og Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn hefur í líki Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra einnig tekið þeim sinnaskiptum í þessu máli að hann lætur að minnsta kosti ómótmælt yfirlýsingu forsætisráðherra í þessu efni. Við erum því á ákveðnum tímamótum í þessu Sundabrautarmáli. Ég kem hér upp til að styðja viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um Sundabrautarmálið og styðja yfirlýsingu sem hæstv. forsætisráðherra gefur í framhaldi af því um að hún sé óskilyrt.