132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:38]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að fá málfarsráðgjöf í ræðustól Alþingis frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Ég hef aldrei litið svo á að það að véla um hluti væri nokkuð neikvætt. Ég lít bara svo á að það merki að starfa að málum. Alþingi starfaði að þessu máli, Alþingi hafði skoðun á því. Það er ekkert neikvætt í því, hv. þingmaður, að þingið véli um mál. Það er bara góð og gild íslenska og í því felst bara að Alþingi starfi að máli og fjalli um það, sem það og gerði. Þá var það skoðun okkar sem vorum í Kvennalistanum, og fyrir því talaði m.a. þingkonan Kristín Ástgeirsdóttir, að ekki bæri að skilja Kjaradóm og kjaranefnd svona að, það bæri að hafa þetta í einni heild, og það er það sem menn tala um í dag að hafi kannski verið mistökin á sínum tíma. Ég veit ekki betur en að það hafi m.a. komið fram hjá Kjaradómi sjálfum núna í þeirri greinargerð sem hann gaf út að kannski hefði verið betra að hafa þetta í einni heild. Eða þá hitt, sem ýmsir töluðu um á þeim tíma, að hafa hópinn mjög þröngan sem Kjaradómur væri — ég þori ekki að segja véla — að fjalla um. Um þetta voru skiptar skoðanir á þeim tíma. Og það er að koma á daginn að kannski voru ýmsar breytingar sem þingið gerði frá því að frumvarpið var lagt fram ekki til bóta.