132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Staða íslensks skipaiðnaðar.

323. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra mjög fyrir svörin. Það kemur skýrt fram í svörum hæstv. ráðherra byggðamála- og iðnaðar að hún hefur ekkert gert. Hún varði tíma sínum aðallega í að tala um aðra hluti, t.d. um að Ísland væri ofarlega á einhverjum lista. Ég get upplýst hæstv. ráðherra um að menn eigi ekki að taka svona lista allt of alvarlega og það m.a. að Ísland er mjög ofarlega á spillingarlistanum þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn t.d. og ýmsir aðrir flokkar, svo sem Sjálfstæðisflokkurinn, fela fjárframlög í sjóði sína. Þetta mundi náttúrlega hvergi líðast nema í svörtustu Afríku. Menn eiga því ekki að taka þessa lista allt of hátíðlega heldur verkefni dagsins.

Verkefni dagsins er skipasmíðaiðnaður og ég spyr hæstv. ráðherra út í það. Hún hefur áður sagt að hún ætlaði að fylgja málinu fast eftir og nú er liðið tæpt ár síðan hún sagði þau orð og hefur ekkert gert. Hún hefur náttúrlega verið upptekin af ýmsum öðrum verkum, svo sem að breyta raforkukerfi landsmanna og leita eftir nýjum og nýjum álverum, jafnvel þremur í sömu viku. Ég tel að áður en lengra er haldið á þeirri braut að hækka t.d. rafmagnið á iðnaðarfyrirtæki, skipasmíðaiðnaðinn og á þá sem búa í dreifbýli, verðið er orðið það hátt að auka þarf skattheimtu á aðra íbúa til þess að lækka þann kostnað, þá eigi menn að staldra við og snúa sér að þessu verkefni. Um þúsund manns störfuðu í þessum iðnaði og þeim hefur farið hríðfækkandi. Þeir sem vinna enn þá hjá þessum fyrirtækjum eru jafnvel að vinna í einhverjum öðrum verkum. Hér eru tækifæri. Menn eiga ekki bara að afskrifa þetta eins og hæstv. ráðherra virðist gera. Ég er á því og vonast til að þessi umræða verði til að ráðherra láti nú hendur standa fram úr ermum og taki til og skoði þessi mál í alvöru því að það er kominn tími til að hrinda þessum ágætu skýrslum í framkvæmd.