132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Siglingalög.

376. mál
[13:58]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem lengi vel hefur verið í umræðunni annars staðar en meðal íslenskrar sjómannastéttar. Við þekkjum það að t.d. hjá Alþjóðaflutningaverkamannasambandinu hefur þetta mál verið mjög í brennidepli, áróður gegn hvers konar áfengisneyslu um borð í skipum. Auðvitað er full ástæða til að taka hér á með þessum hætti. Við þekkjum það eins og hv. þm. Hjálmar Árnason kom inn á varðandi skemmtiferðaskip. Ég hef einmitt rætt við Íslendinga sem hafa verið í yfirmannastöðum á skemmtiferðaskipum, að þar eru reglur mjög hreinar og beinar. Menn geta fengið sér alkóhól eða bjór á milli vakta en það er algjörlega skilyrðum háð hvernig menn eigi að bera sig að áður en þeir koma á vaktina og hversu langt má líða frá því viðkomandi neytti áfengis og þar til viðkomandi kemur á vakt, alveg nákvæmlega eins og er með flugáhafnir.

Það var nú um tíma á íslenska kaupskipastólnum á árum áður að nokkuð var um það að áfengi væri haft um hönd. Það var ekki algengt meðal skipstjórnenda heldur frekar kannski annarra í áhöfn. En auðvitað getur stafað af þessu hætta og skip er þannig vinnustaður að það getur allt gerst hvort sem menn eru á vakt eða frívakt. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að þeir sem eru á frívakt séu ávallt tilbúnir til verka ef eitthvað ber að höndum. Ég tel því að frumvarpið sé mjög af hinu góða og styð það heils hugar þegar það verður tekið til umfjöllunar í hv. samgöngunefnd.