132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

86. mál
[16:42]
Hlusta

Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmann Guðlaug Þór Þórðarson til að lesa 18. gr. laganna um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum Í 1. mgr. 18. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög ... að kveða á um aukna vernd ákveðinna friðaðra stofna villtra fugla og spendýra ef brýn ástæða er til.“ — Síðan segir: „Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um að strangari reglur gildi um búsvæði þessara tegunda ef sýnt þykir að tegundunum stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða séu sérstaklega viðkvæmar fyrir raski.“

Ég tel einfaldlega að þessi setning í lögunum sé ekki nógu skýr og til að taka af allan vafa vil ég bæta við örfáum orðum, þ.e.: „eða að þeim stafi ógn af öðrum tegundum dýra sem óheimilt er að sleppa í villta náttúru en hafa myndað stofn á búsvæði þeirra.“ Hér er einfaldlega verið að bæta við lagatextann þannig að ekkert fari á milli mála að yfirvöld, í þessu tilfelli umhverfisráðherra, hafi til þess lagaheimild að setja reglugerð sem bannar að þessi dýr séu haldin á stöðum þar sem þau geta valdið tjóni á náttúrunni ef þau skyldu sleppa út þó ekki væri nema fyrir slysni.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði áðan með réttu að þetta væru gæludýr. Það kann nefnilega að vera svo að ef stjórnvöld, eins og lagatextinn er í dag, mundu reyna að setja svona bann þá kæmu fram kærur, að fólk mundi kæra slíkar reglugerðir og telja þær ólöglegar því það væri óheimilt að banna fólki að halda þessi sætu, fallegu gæludýr og að ekki væri fyrir hendi nein lagastoð fyrir slíku reglugerðarbanni. Hér er ég einfaldlega að reyna að vera svolítið framsýnn og rétta stjórnvöldum ákveðna hjálparhönd (Forseti hringir.) eða benda þeim á að hér þarf aðeins að laga til lagatextann svo hægt sé að beita skilvirkum aðgerðum.