132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

66. mál
[17:04]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þá er það komið á hreint að hér er um gagnrýni að ræða. En mig langar til að fá að vita dálítið efnislega um þessa þingsályktun. Það hefur komið fram gagnrýni, m.a. frá þeim sem hér stendur, á hæstv. utanríkisráðherra þegar hann starfaði sem fjármálaráðherra um upplýsingaskyldu, þ.e. að hann veitti ekki upplýsingar um hvernig hann hagaði rekstri ríkisfyrirtækja, t.d. Símans. Þar voru margir smærri aðilar, vegna þess að umræddir sjálfstæðismenn sem flytja þessa þingsályktunartillögu segjast vera að hugsa um litlu aðilana. Þegar ég vakti athygli á að fjármálaráðherra, sem er núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, væri nú aldeilis að halda þessum smærri aðilum sem veittu ríkisfyrirtækinu samkeppni niðri, þá vildi hann ekki veita upplýsingarnar. Þetta var liður í að Síminn gat haldið áfram að troða skóinn af þessum smærri aðilum.

Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann, Guðlaug Þór Þórðarson, hvort hann sé þá ekki tilbúinn til að stuðla að því að smærri aðilar verði betur í stakk búnir til að sækja rétt sinn. Að ríkari upplýsingaskylda verði sett á á hendur opinberra ríkisfyrirtækja, en við í stjórnarandstöðunni höfum bent á að það er gagnrýnisvert að ýmsar upplýsingar sem ekki ætti að fara leynt með skuli ekki liggja uppi á borðunum. Þá gætu menn ekki verið að gera starfslokasamninga eða verið að hygla einhverjum kaupum því reksturinn væri uppi á borðinu. Þessi umræða var m.a. um kaup (Forseti hringir.) Landssímans á Skjá einum þannig að hann getur þá tekið undir með okkur í stjórnarandstöðunni að þessar upplýsingar eigi að vera aðgengilegar.