132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:19]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst ræðan sem hv. þingmaður flutti áðan afar kúnstug og er kannski langt til jafnað að í sömu ræðunni gangi hann í tvígang gegn sínum eigin frumvörpum sem hann hefur áður flutt. Það hlýtur að vera einhvers konar met á hinu háa Alþingi. Árið 2000 flutti hv. þingmaður frumvarp um skattfrelsi forseta og tók þar sérstaklega fram — hann er 1. flutningsmaður málsins — tók sérstaklega fram að ekki væri heimilt að lækka laun forseta á miðju kjörtímabili. Þetta var árið 2000. Hann lagði það sérstaklega fram í frumvarpi og tók þetta fram í greinargerð. Það þarf svo sem ekkert ímyndunarafl til að láta sér til hugar koma að þekkt persóna á Spaugstofunni hefði kannski gert þetta á svipaðan hátt, þ.e. orðið svona tvísaga. Nú segir hv. þingmaður að það fari ekki gegn stjórnarskránni að lækka laun forseta en í greinargerð árið 2000 var þetta ekki heimilt. Þetta er eiginlega svo (Forseti hringir.) kúnstugt, virðulegi forseti, að hv. þingmaður verður að eiga skömmina sjálfur.