132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:39]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér þykir miður að meiri og minni hluta hafi ekki tekist að ná saman um að ljúka þessu máli sem við ræðum hér í dag. Vegna þess að í reynd er það svo að um sameiginleg markmið er að ræða, þ.e. að láta úrskurð Kjaradóms frá 19. desember sl. ekki koma til framkvæmda. Ástæðan fyrir því að meiri og minni hluti gátu ekki verið samstiga í þessu máli er fyrst og fremst sú að stjórnarliðið var ekki tilbúið að láta stjórnarskrána njóta vafans í þessum efnum. Stjórnarliðið er tilbúið að tefla á tæpasta hvað varðar stjórnarskrána en við erum ekki tilbúin til þess, enda kváðu allir lögfræðingar sem spurðir voru fyrir nefndinni upp úr um það að með þeirri leið væri teflt á tæpasta varðandi stjórnarskrána.

Í annan stað er einnig verið að marka hér nýja stefnu hvað það varðar að Alþingi er að taka ákvörðun um laun ráðherra og þingmanna. Alþingi er með frumvarpi ríkisstjórnarinnar að hækka laun ráðherra og þingmanna um 2,5%. Það er ekki ákvörðun sem tekin er að vel ígrunduðu máli og það er ekki ákvörðun sem tekin er eftir að hafa verið rædd á hinu háa Alþingi. Hún hefur ekki verið rædd hér heldur er þetta ákvörðun sem tekin er í framhaldi af því að ríkisstjórnin réð ekki við það ástand sem upp var komið. Þetta eru viðbrögð fálmkenndrar forustu ríkisstjórnar sem augljóslega saknar þeirra sem áður leiddu hana í erfiðum málum.