132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg sjálfsagt að verða við þessari beiðni. Það er alveg rétt að einn starfsmaður Ríkisútvarpsins, Páll Magnússon útvarpsstjóri, telur það fela dauðann í sér ef rekstrarforminu verður ekki breytt, væntanlega í þá veru eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi að hann einn fái alræðisvald yfir öllum öðrum starfsmönnum stofnunarinnar. Það er ákallið og það væntanlega felur dauðann í sér ef ekki verður orðið við því ákalli.

Ég geri ráð fyrir að skoðanir kunni að vera skiptar í Ríkisútvarpinu um hvað ágætast er í þessu efni en þó hef ég grun um að þeir aðilar sem fjalla um réttindi og kjör starfsmanna komist að þeirri niðurstöðu að þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar sé afar vafasamt og ég get upplýst hv. þingmann um að það eru að hefjast fundarhöld einmitt um það efni. Núna þegar frumvarpið hefur komið fram verður væntanlega farið í saumana á réttindaköflum frumvarpsins og hvað það er líklegt til að hafa í för með sér fyrir kjör og réttindi starfsfólksins. Það eru félagsmenn í BSRB og BHM sem einkum munu koma að því og væntanlega einnig í Rafiðnaðarsambandinu. Ef að líkum lætur verða viðbrögðin gagnrýni því að við fengum umsagnir þessara aðila við síðustu tilraun ríkisstjórnarinnar til að hafa réttindin af þessu fólki í frumvarpi sem fram kom frá menntamálaráðherra á síðasta þingi.