132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:06]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að ég geti ekkert fullyrt um það þá get ég mér til um að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sé að synda í sömu átt og flestir, a.m.k. mjög margir stuðningsmenn Framsóknarflokksins og ég held þjóðin almennt. Ég held að þó að viðhorf okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði kunni að vera minnihlutaviðhorf innan þingsins á sama hátt og við vorum með minnihlutaskoðun á Kárahnjúkum og í minni hluta að verja Þjórsárverin, þá held ég að við séum nokkuð í takt við þjóðina. Það held ég að sé staðreynd málsins.

Ég held ekki að af hálfu Framsóknarflokksins og margra sjálfstæðismanna að þetta sé einhver lævís tilraun til að selja Ríkisútvarpið. Ég held að menn meini það margir að ekki standi til að gera það. Ég er hins vegar að benda á að einkavæðing og sala Ríkisútvarpsins verður auðveldari eftir að þetta skref er stigið og að auki, og ég staðnæmist að sjálfsögðu við það, þegar verið er að skerða réttindastöðu starfsfólksins, miðstýra valdinu, færa það undir pólitískan járnhæl í ríkari mæli en verið hefur. Hafa menn hugleitt þetta? Í ríkari mæli en verið hefur.

Síðan er það hitt þegar menn tala um skylduáskrift að Ríkisútvarpinu, það getur vel farið svo að við sem höfum hvað harðast staðið vaktina fyrir Ríkisútvarpið förum að efast um slíka skylduáskrift. Það skyldu menn hugleiða hvort menn eru að skera á tengslin á milli þessarar stofnunar og þjóðarinnar.