132. löggjafarþing — 53. fundur,  27. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[03:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir kröfur hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að þetta frumvarp verði að stöðva, bæði af umhverfistengdum ástæðum og efnahagslegum. Með frumvarpinu er opnað á heimildir til ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnaðarráðherra að veita leyfi til rannsókna, að veita orkufyrirtækjum leyfi til rannsókna og í kjölfarið koma síðan að sjálfsögðu heimildir til virkjunar. Þó að það gerist ekki sjálfkrafa þá er þetta engu að síður ferlið.

Staðreyndin er sú sem ég held að öll þjóðin geri sér grein fyrir að þegar ál er annars vegar, þegar minnst er á ál þá hverfur allt sem heitir dómgreind hjá núverandi ríkisstjórn, ef hún einhvern tíma var þar fyrir. Þau áform sem nú eru uppi á teikniborðinu eru svo hrikaleg og bera vott um svo ótrúlegt dómgreindarleysi að ég held að þegar kemur að samskiptum ríkisstjórna við alþjóðlega auðhringi, stórfyrirtæki, t.d. í áliðnaðinum, þá hljótum við að eiga heimsmet í undirlægjuhætti og þá er ég að horfa til íslensku ríkisstjórnarinnar. Það er dapurlegt að þurfa að segja það. Hún auglýsir okkur víðs vegar um lönd sem það Evrópuland sem býður upp á ódýrustu orkuna, hún er tilbúin að fórna mestu. Það er ekkert Evrópuland, ekkert land a.m.k. í vestanverðri Evrópu eða í Norður-Ameríku sem gengur eins langt í því efni að fórna náttúruperlum á altari álbræðslna og í annan stað eru á frumvarpinu mjög alvarlegir vankantar. Þar horfi ég ekki síst til þess að þótt ákvæði sé um það í frumvarpinu að settar skuli reglur sem úthlutun leyfa grundvallast á eða taki mið af, þá er það ekki fyrr en seint á næsta ári sem þær skuli liggja fyrir þótt lögin komi strax til framkvæmda.

Ég lýsi furðu á því að þingmenn Samfylkingarinnar sem sögðu fyrr í umræðunni þegar fyrri hluti 2. umr. fór fram fyrir hátíðir að það hlyti að vera meginmálið að tryggja að reglurnar lægju fyrir áður en ráðherra yrði veitt heimild til að úthluta leyfum, að þeir þingmenn skuli núna hlaupa frá málinu, tína sig út af mælendaskránni og hverfa úr þinginu og skilja okkur þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ein eftir til að standa þessa vakt. Það er ekki í fyrsta skipti sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur náttúruvaktina á þingi. Við gerðum það í Kárahnjúkadeilunni, við gerum það í deilunni um Þjórsárver, sem nú sem betur fer hefur skilað okkur mikilvægum árangri. Áform um stórfelld náttúruspjöll þar um slóðir hafa verið lögð til hliðar, á hilluna, væru betur komið eitthvað miklu lengra og eitthvað miklu neðar, en þau hafa verið sett til hliðar. Þar er fyrir að þakka þeirri varðstöðu sem hefur verið staðin hér á Alþingi og ekki síður þeirri miklu baráttu og þeirri miklu staðfestu sem fólkið í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur sýnt og að sjálfsögðu þúsundir einstaklinga sem hafa reist náttúruverndarfánann í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum og árum. Það er gleðilegt að verða vitni að því að vatnaskil eru að verða í þjóðfélaginu. Maður finnur það hvar sem maður fer. Fólk er búið að fá nóg af álæðinu, fólk er orðið hrætt við dómgreindarleysi og undirlægjuhátt ríkisstjórnarinnar og nú segja menn stopp. Nú er nóg komið. Jafnvel þeim sem studdu Kárahnjúkavirkjun er núna ofboðið. Þeim var ofboðið þegar hæstv. ráðherra fór í könnunar- og skemmtiferðir með fulltrúa álfyrirtækjanna um Norðurland sumarið 2004. Þeim var ofboðið þegar hæstv. ráðherra hrósaði sigri í fréttum Ríkisútvarpsins á síðasta ári og sagði að nú væru að verða þáttaskil. Áratugabarátta að laða hingað álfyrirtæki til landsins væri að skila árangri, þau stæðu núna í röðum og núna þegar síðustu áformin eru uppi á teikniborðinu held ég að flestum sé nóg boðið.

Síðan er hitt og því hafa verið gerð ágæt skil, nú síðast í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, þ.e. það sem lýtur að mengunarmálunum, Kyoto-samþykkt og það sem því tengist. Ég hef verið að fara í gegnum umræðuna sem fór fram fyrir jólin og ég man ekki betur en þingmenn sem töluðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans, t.d. hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hafi vísað öllum vangaveltum um stórfelldar virkjunarframkvæmdir og smíði stórra álfyrirtækja á næstu árum á bug í ljósi þess að slíkt væri fjarstæða í ljósi Kyoto-samþykktar þrátt fyrir allar undanþágur. Ég man ekki betur. Þetta er náttúrlega nokkuð sem við munum fara rækilega í við 3. umr. málsins því það er eitt sem alveg er víst að við höfum ekki sagt okkar síðasta orð í þessum málum.

Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefur sýnt mjög mikla óbilgirni í umræðum um þessi mál. Við óskuðum eftir því að hlé yrði gert á þessari umræðu og buðum að henni yrði lokið á mánudag á tiltölulega skömmum tíma. Því var hafnað. Meirihlutavaldinu var beitt og það er alveg ljóst að það er geymt en ekki gleymt. (Iðnrrh.: Er það ekki meiri hlutinn sem ræður?) Hæstv. iðnaðarráðherra kallar fram í og vill greinilega fá ítarlegri umræðu um málið. Það er alveg sjálfsagt. Jú, jú, það er meiri hlutinn sem ræður á Alþingi og á að gera það í þjóðfélaginu að sjálfsögðu einnig. En eigum við þá ekki bara að láta á það reyna fyrst hæstv. ráðherra er að kalla eftir slíku? Eigum við ekki bara að spyrja þjóðina? Gæti verið að hæstv. iðnaðarráðherra, sem núna minnir okkur á að meiri hlutinn á að ráða, hafi þarna lög að mæla og að þetta sé ansi góð hugmynd hjá hæstv. ráðherra? Við höfum reyndar áður sett fram slíkar hugmyndir. Við gerðum það varðandi Kárahnjúkavirkjun. Þá settum við fram hugmynd um að þeirri miklu og umdeildu framkvæmd yrði skotið til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu og hún fengi að útkljá málið. Við höfum að sjálfsögðu barist. Það hefur ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn gert líka og álvinirnir allir en ég hef trú á að meiri hluti manna, meiri hluti þjóðarinnar hefði komið í veg fyrir það hrikalega náttúruslys sem þar varð. Í svona stórum og afdrifaríkum málum á að virkja þau tæki sem við höfum til að kanna hug þjóðarinnar og að sjálfsögðu er það þá meiri hlutinn sem á að ráða. Ég er alveg sammála því. Hver veit nema þetta geti orðið að veruleika.