132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:21]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ansi athyglisvert svar. Vinstri grænir tala um það að grunnþjónustan eigi að vera í ríkiseign og -rekstri og fyrir hana eigi að greiða úr opinberum sjóðum eins og hv. þingmaður sagði áðan. Er með öðrum orðum verið að segja það að rafmagnið eigi að greiðast úr ríkissjóði? (KolH: Ekki mistúlka það sem ég var að segja, setningin var lengri.) Það kom fram með þeim hætti að þetta væri eitt af því sem ríkið ætti að greiða.

Ég tel að það sé langheilbrigðast fyrir orkusölu og orkunotendur í landinu að þetta sé sem frjálsast og þannig eru orkulögin okkar í dag. Við tókum líka heilmikla umræðu um orku á Norðurlöndum, orku í Evrópu. Hvert er vandamálið þar? Vandamálið er það að það er ótrygg orka frá Rússlandi og fyrrverandi Rússlandsríkjum. Það er ekki hægt að treysta á afhendingu. Við erum með traust og öflugt afhendingarkerfi á Íslandi. Allt sem sagt var neikvætt á þessu Norðurlandaþingi um orkumál er í stakasta lagi hér og miklu betra, svo umhverfismálin séu ekki nefnd, sem er náttúrlega með ólíkindum hversu góð þau eru hjá okkur og því eigum við að fagna.