132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við tökum nú 3. umr. um frumvarp sem felur í sér að hæstv. iðnaðarráðherra fái nánast ótakmarkaðar heimildir til að úthluta rannsóknarleyfum til virkjunarframkvæmda í vatnsföllum landsins.

Ég kom inn á þetta mál í fyrri ræðu minni í dag. Síðan þá hafa mér borist viðbótargögn, sem reyndar lúta að því sem er að gerast í dag, að verið er að boða til fundar um álver á Norðurlandi. Verið er að boða til blástursfundar um álversmöguleika á Norðurlandi.

Það var með hryllingi sem mér og fleirum var boðið upp á það að iðnaðarráðuneytið knúði fram þann vilja sinn að sveitarfélög á Norðurlandi gengju til samstarfs við Alcoa um staðarval fyrir álver á Norðurlandi. Þeim var sagt að ríkisvaldið væri reiðubúið til að láta fjármagn til undirbúnings og uppbyggingar álvera og stórvirkjana á Norðurlandi, en ekki reiðubúið til að setja fjármagn í annað. Þannig var þeim stillt upp við vegg. Þegar sá samningur var undirritaður um þá vinnu á síðasta ári kvað hann á um skyldur sveitarfélaganna. Í þeim samningi stendur — sem var undir þessari sameiginlegu aðgerðaráætlun sem lögð var fram af Fjárfestingarstofunni fyrir hönd iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, Akureyrarbæ, Húsavíkurbæ, Sveitarfélaginu Skagafirði, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og Alcoa Inc. um byggingu álvers á Norðurlandi, með leyfi forseta:

„Lóð undir verksmiðjuna verði látin í té af viðeigandi sveitarfélagi sem einnig mun taka að sér að ráðast í aðrar fjárfestingar í stoðveitum með aðstoð ríkissjóðs Íslands, ef þörf krefur. Gerð nýrrar hafnar, útvegun rafmagns, virkjun og orkuflutningur verður meðal þeirra atriða sem leggja þarf mat á sem lið í því verkefni sem áætlun þessi fjallar um.“

Hér er verið að tala um það sem ríkið ætlar að koma að og leggja til. Þá eru til fjármunir. Þá er til kraftur til að undirbúa álver og stórvirkjanir. Ekkert launungarmál er hvaða stórvirkjanir það eru sem liggja undir og liggja núna undir í frumvarpi því sem við erum að ræða. Það er vatnasvið Skjálfandafljóts. Í fylgiskjali með frumvarpinu stendur að hingað til hafi orðið að hafna rannsóknarleyfum til virkjana í Skjálfandafljóti vegna þess að lagaheimildir hefur skort. Með frumvarpinu fær hæstv. iðnaðarráðherra lagaheimild til að láta rannsóknir á Skjálfandafljóti, Aldeyjarfossi, fara á fullt til undirbúnings virkjanaframkvæmda.

Hér stendur líka um Héraðsvötnin að leitað hafi verið eftir leyfi til virkjanarannsókna á vatnasviði Vestari- og Austari-Jökulsáa í Skagafirði. Hér eru taldar þær virkjanir sem hæstv. iðnaðarráðherra er að leita núna eftir brýnum heimildum á. Þetta er alveg ljóst. Hér er ég með bráðabirgðaskýrslu frá starfshópi sem iðnaðarráðherra þvingaði inn á sveitarfélög á Norðurlandi í krafti þess að til væri fjármagn ef þau vildu fara inn í ál og álbræðslur. En ef þau vildu fara inn í aðra atvinnuuppbyggingu, þarfaþjónustu, uppbyggingu háskóla, Háskólans á Akureyri, nei, þá væri ekki til fjármagn.

Í þeirri skýrslu sem á að fara að kynna í kvöld um staðarvalsrannsóknir fyrir álver á Norðurlandi er þetta ferli rakið. Hverjir eru nú staðirnir? Staðirnir sem koma til greina eru á Dysnesi við Eyjafjörð sem þykir mjög ákjósanlegur staður, stendur hérna í skýrslunni, „vegna mikils aðdýpis og skjóls frá úthafsöldu.“ Þar þarf að gera hafnarkant og aðstöðusköpun en reyndar er ekki þörf á brimgarði. Kostnaðaráætlun við hafnargerð er 1,3 milljarðar kr. Ætli Eyfirðingar vildu ekki heldur fá 1,3 milljarða kr. til annarrar atvinnuuppbyggingar? Af hverju er fjármagn tilbúið ef á að fara að undirbúa álver?

Á Bakka við Húsavík er til umræðu að reisa álver. Þar þarf líka að reisa höfn. Kostnaðaráætlunin er 2,6 milljarðar kr. fyrir álvershöfn við Húsavík. Ætli Húsvíkingar og Þingeyingar vildu ekki heldur fá þessa 2,6 milljarða kr. til annarrar atvinnuuppbyggingar ef þeir mættu velja? Til uppbyggingar ferðaþjónustu. Hvalasafnið á Húsavík er heimsþekkt. Mývatn, náttúruauðlindirnar allt í kring. Ef Húsvíkingar og Þingeyingar mættu ráða ætli þeir mundu þá verja 2,6 milljörðum kr. til að byggja höfn fyrir álver? Ætli þeir mundu ekki frekar verja fjármununum í annað?

Sama er að segja um hugmyndir um álver í Skagafirði sem gert er ráð fyrir að rísi við Brimnes eða við Kolkuós í Skagafirði. Náttúruperluna og sögustaðinn Kolkuós. Þar þarf að byggja höfn fyrir 2,6 milljarða kr. í þessari áætlun ef á að reisa þar álver. Og athugið, þetta er bara pínulítill hluti af því sem gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélögin leggi til. Ætli Skagfirðingar vildu ekki heldur fá þessa 2,6 milljarða kr. til annarrar atvinnuuppbyggingar í Skagafirði en uppbyggingu álvers?

Frú forseti. Í þessari bráðabirgðaskýrslu er einnig talað um ályktun um útblástur. Við Húsavík er gert ráð fyrir að föst búseta þurfi að leggjast af á Héðinshöfða og líklega fleiri svæðum þar í kring. Um Skagafjörð, ef álver yrði reist við Brimnes eða Kolkuós, segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Dreifing flúors kæmi einnig til með að ákvarða þynningarsvæði vegna álvers á Brimnesi. Svæðið næði um 2,5 km til suðausturs og kæmi föst búseta á Brimnesi og Laufhóli til með að leggjast af.“

Fleiri bæir þar í kring mundu sjálfsagt verða að leggjast af ef áform iðnaðarráðherra um álver við Kolkuós verður að veruleika, sem ég vona að aldrei verði. En þetta er áætlunin. Við Kolkuós er verið að endurvekja og laða fram sögu og forna menningu Kolkuóss, hins forna hafnarstæðis Hólastaðar, og náttúruperlu. Álver við Kolkuós mundi eyðileggja allar þær hugmyndir, frú forseti. Mér er nú nær að halda að þeir sem byggja Brimnes, Laufhól, bæina úti í Óslandshlíð, Bakka, Kýrholt og fleiri bæi þar yrðu þá næstu nágrannar við álverið. Ég held að þeir mundu ekki fagna því ef framsóknariðnaðarráðherrann kæmist upp með að troða álveri inn í Skagafjörð.

Hér, eins og í annarri baráttu í þessu máli, eru það Vinstri hreyfingin – grænt framboð og íbúarnir sem berjast gegn þessu. Það er eitt helsta baráttumál Framsóknarflokksins að virkja og stífla jökulvötnin í Skagafirði og koma upp álveri við Kolkuós. Það er stutt af hópi sjálfstæðismanna og samfylkingarfólks í sveitarstjórn. En Vinstri hreyfingin – grænt framboð stendur þar vaktina og mun hafa sigur. Hér standa einmitt tveir ágætir Skagfirðingar, hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, og hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Hæstv. heilbrigðisráðherra, sá ágæti maður, lætur sér mjög annt um heilbrigði fólks, ekki síst Skagfirðinga. Hann yrði nú hugsi ef ályrjan frá álbræðslu við Kolkuós rynni og steðjaði yfir í Óslandshlíð, til hans fornu heimabyggðar. Svona er þetta nú náið, það sem við erum hér að ræða um.

Frú forseti. Ég vildi nefna þetta hér vegna þess að þetta mál er keyrt áfram af svo miklu ofurkappi gagnvart Norðlendingum að með endemum er. Ég vona svo sannarlega að það komi ekki til að þessar framkvæmdir nái fram að ganga og vona að svo öflug samstaða heimamanna náist. Það má öllum vera ljóst að Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun berjast gegn þessum náttúruspjöllum alveg til síðasta manns.

Ég hef áður vitnað til ályktunar aðalfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði sem haldinn var 29. janúar sl. Þar segir, með leyfi forseta, að aðalfundurinn fagni:

„… þeirri fjölbreyttu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Skagafirði síðustu árin og áformum um miðstöð hátækniiðnaðar í héraðinu. Hins vegar hafnar fundurinn hugmyndum um álver við Kolkuós og stórvirkjanir í Skagafirði í tengslum við álbræðslu á Norðurlandi sem eru andstæðar hagsmunum Skagfirðinga. Atvinnutækifærin felast í fjölbreytni og þekkingariðnaði en ekki í einhæfum álbræðslum sem skaða möguleika annarra atvinnugreina ásamt því að ganga á náttúru landsins og aðra atvinnukosti til framtíðar.“

Ég vona svo sannarlega og trúi að okkur takist að halda þessari baráttu til streitu.

Hæstv. iðnaðarráðherra flippaði í umræðum hér áðan þegar ég var að lesa upp vísur og ljóð eftir skagfirsk skáld, sem höfðu ort óð til Héraðsvatnanna og Jökulsánna, og vitna í orð ýmissa Skagfirðinga um hug sinn til Héraðsvatnanna. Ég vil í þessu sambandi minna á að Skagafjarðarvötnin eru miklu meira en það að hægt sé að sýna orðum þeirra sem fjalla um náttúru, menningu og sögulegt gildi þeirra lítilsvirðingu. Samtök ferðaþjónustunnar álykta t.d. 6. október 2004, með leyfi forseta:

„Samtök ferðaþjónustunnar vara alvarlega við þeirri tillögu sem fram hefur komið og er til breytingar á þriðju tillögu að aðalskipulagi Skagafjarðar 2004–2016.

Samtökin benda á að efling ferðaþjónustu hefur verið eitt meginmarkmið stjórnvalda á undanförnum árum. Áframhaldandi vöxtur er best tryggður með öflugri þjónustu og fjölbreyttri afþreyingu. Góð afþreying er lykilatriði í að laða ferðamenn til landsins. Jökulár Skagafjarðar eru afar vinsæl afþreying, bæði meðal erlendra og innlendra ferðamanna enda einhverjar þær bestu og fjölbreyttustu til fljótasiglinga í Evrópu.“ (Gripið fram í.)

Víða um heim fara kynningarbæklingar og myndir af gljúfrunum í Skagafirði, af fljótasiglingum, kynning á hreinu Íslandi — og nú er slík sýning einmitt í Lundúnum að mig minnir. Þar eru Skagafjarðarvötnin notuð til kynningar á hreinu Íslandi. Verði af álbræðslu, verði af virkjun Skagafjarðarvatnanna er það ekki lengur fyrir hendi.

Til þess að minna á þann hug sem Skagfirðingar bera til Héraðsvatna, og hér er hafður í flimtingum, vil ég t.d. minna á grein sem Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði um áform um Skatastaðavirkjun og virkjanir Jökulsánna. Greinin birtist þann 27. október 2004 í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„Hitti á dögunum ungan Skagfirðing á förnum vegi. Við tókum tal saman um lífið og tilveruna, staðinn, stundina, heimahagana og talið barst óhjákvæmilega að Vötnunum. Hvaða Skagfirðing hittir þú yfirleitt, á heimaslóð eða fjarri heimkynnum, sem ekki talar um Vötnin. Hvernig er veiðin? Er lágt eða hátt í? Eru vötnin komin á, eru þau komin af? Hvernig er liturinn? Syngur hátt í þeim í dag?

Vötnin eru Skagafjörður.

En ef þeir fíflast til að stífla, hvað verður þá um Eylendið? sagði ungi maðurinn og fannst hann komast vel að orði. Mér fannst það líka og varð hugsi, ef þeir fíflast til að stífla. Hvað gerist þá? Samkvæmt okkar lagabálkum ber að láta fara fram umhverfismat um þýðingu þess að spilla náttúrunni. Við vitum þess nýleg dæmi að einn ráðherra getur umsnúið mati Umhverfisstofnunar sér í hag. Og það er ekki endilega hagur náttúrunnar eða umhverfisins. Ekki endilega.“

Frú forseti. Þetta var stutt tilvitnun í orð Önnu Dóru Antonsdóttur sem lengi bjó í Skagafirði. Sigríður Sigurðardóttir, safnvörður í Glaumbæ, segir í grein í Feyki 10. nóvember 2004, með leyfi forseta:

„Skagafjörður er fögur umgjörð um gott mannlíf. Það dró mig hingað aftur eftir að hafa hleypt heimdraganum í öðrum byggðum. Ekki vonin um að geta virkjað. Hér eru hvorki vírvirki né línuvegir, virkjanir né stórverksmiðjur sem trufla sýn til dala og fjalla, eyja og stranda. Þannig vil ég hafa Skagafjörð áfram. Ég get ekki hugsað mér þau eftirmæli að á mínu stutta skeiði í eilífðinni hafi ég þegjandi tekið þátt í óafturkræfum náttúruspjöllum og þannig misnotað umhverfi mitt vísvitandi. Þess vegna sting ég niður penna. Einnig af því að náttúran sjálf getur ekki varið sig. Hefur ekki annað tungumál en náttúruhamfarir. Ég vil biðja Jökulsánum og þar með Héraðsvötnunum vægðar. Þau hafa og eru enn að móta Skagafjörð og skagfirskt mannlíf.“

Og áfram segir í greininni:

„Hvað stjórnar gerðum okkar þegar við viljum leggja heilu landsvæðin undir óafturkræfar aðgerðir og höndla og drottna eins og hverjum sýnist? Hagsmunir hverra eru í húfi, hvað rekur menn áfram, stolt, völd, hégómi, skammsýni? Eða skítt með náttúruna ef ég get grætt á henni, skítt með umhverfið ef það er ekki í alfaraleið, skítt með önnur sjónarmið ef það samræmist ekki mínum, skítt með framtíðina ef við getum skemmt okkur í dag.“ Þetta segir Sigríður Sigurðardóttir í grein sinni í Feyki, til varnar Héraðsvötnunum.

Frú forseti. Ég leyfi mér að lokum að vitna í yfirlýsingu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði frá 8. júní 2005, sem undir er mynd af Skagafjarðarjökulvötnunum, fljótasiglingunum heimsfrægu. Yfirlýsingin ber yfirskriftina: „Meðan vötnin ólgandi að ósum sínum renna,“ og hljómar svo, með leyfi forseta:

„Héraðsvötnin og Jökulsárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins, allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að nýta þau óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað, og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing Vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska, er einnig ómetanleg. Atvinnutækifærin felast í fjölbreytni og þekkingariðnaði en ekki einhæfum álbræðslum sem skaða möguleika annarra atvinnugreina eins og skýrt hefur komið í ljós að undanförnu. Félagsfundur Vinstri – grænna í Skagafirði leggst því alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði.“

Frú forseti. Það frumvarp sem við hér erum að fjalla um felur iðnaðarráðherra auknar og víðtækar heimildir til að úthluta rannsóknarleyfum til virkjana. Við Skagfirðingar lítum svo á að jökulvötnin í Skagafirði eigi ekki að rannsaka með tilliti til virkjana. Þau séu náttúruvættir og eigi að vera hafin yfir geðþóttaákvarðanir einstakra iðnaðarráðherra. Þau eiga að vera hafin yfir geðþóttaákvarðanir iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sem sér ekkert nema ál. Við fórnum ekki jökulvötnunum í Skagafirði eða öðrum stórfallvötnum sem enn fá að ganga óbeisluð. Við fórnum þeim ekki á álaltari þessarar ríkisstjórnar í álæði iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Við segjum stopp, frú forseti.