132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:57]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Forseti. Hvert er hv. þingmaður að fara? Hv. þingmaður heldur uppi málefnalegri umræðu. Hann bendir á að viðamesta rannsókn sem liggur fyrir til þessa hafi leitt í ljós að ekki séu tengsl milli óbeinna reykinga og lungnakrabbameins. Það er ekki mín skoðun. Ég dreg það fram í þessa umræðu að þessi rannsókn liggur fyrir.

Einhverra hluta vegna sá hv. þm. Siv Friðleifsdóttir ekki tilefni til að vísa í þessa rannsókn þegar hún lagði fram frumvarp sitt. Þar var hún samt sem áður með 54 tilvísanir í aðrar rannsóknir. Hæstv. heilbrigðisráðherra gerir það ekki heldur í sínum 78 tilvísunum í frumvarpinu sem við ræðum hér.

Málflutningur minn getur því varla talist furðulegur. Það vekur hins vegar furðu þegar sannkristnir aðilar eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem vill ganga lengst í að (Forseti hringir.) banna reykingar, skuli ekki vísa í (Forseti hringir.) viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið á þeim málum og (Forseti hringir.) kalla það furðulegan málflutning að draga hana fram.

(Forseti (JBjart): Forseti sér tilefni til að minna hv. þingmenn á að virða tímamörk í andsvörum.)