132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:50]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er gott að fá tækifæri til að ræða hér um skattalegt umhverfi kaupskipaútgerðar á Íslandi. Hv. málshefjandi Guðmundur Hallvarðsson spurði hæstv. ráðherra hvort hann hefði reynt að leiða þetta mál til lykta og koma í veg fyrir að kaupskipaflotinn flýði land eins og réttast er að kalla það. Svör hæstv. ráðherra voru þau að, jú, hann hefði rætt við hagsmunaaðila, menn hefðu talað saman nokkuð lengi en við sjáum það á niðurstöðunni, þ.e. að kaupskipaflotinn er horfinn af íslenskri skipaskrá, að hæstv. ráðherra hefur ekki treyst sér til þess, eins og hann lýsti reyndar sjálfur áðan í ræðu sinni, til að koma til móts við kaupskipaflotann og kaupskipaútgerðir þannig að skattaleg skilyrði hér yrðu sambærileg við það sem aðrir bjóða.

Ég held að þetta sýni okkur kannski að núverandi hæstv. ráðherrar eru svifaseinir. Þeir eru búnir að sitja lengi á valdastólunum og þeir eru orðnir eins og stórt kaupskip, lengi að breyta um stefnu, þeir eru svo vanir því að geta bara setið og haft það rólegt meðan peningarnir tikka í kassann að þeir telja sig ekki þurfa að standa í því að bregðast við einhverjum aðstæðum sem upp koma eins og í þessu tilviki.

Ég er svolítið hræddur um að þessi sofandaháttur verði svipaður hvað varðar sprotafyrirtækin okkar, nýsköpunarfyrirtækin. Við vitum að erlendir aðilar eru að bera víurnar í þessi fyrirtæki, bjóða þeim betri skilyrði en hér bjóðast og þau eru mörg hver að velta fyrir sér að flytja úr landi. Engin svör hafa fengist hjá hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. ríkisstjórn þannig að ég óttast að niðurstaðan varðandi það mál verði sú sama og varðandi kaupskipaflotann, að eftir einhverjar umræður komi það út úr slímusetu hæstv. ráðherranna að það gerist ekki neitt og fyrirtækin fari.