132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:52]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að taka upp málefni íslenskrar kaupskipaútgerðar. Ég þekki það frá árunum 2003 og 2004 þegar ég átti sæti í samgöngunefnd Alþingis að hv. þingmaður tók málefni útgerðarinnar þar upp enda hefur þetta verið einlægt áhugamál hv. þingmanns um langa hríð.

Það er rétt að það er mjög alvarlegt að verkkunnátta í sjóflutningum hverfi úr landinu, að íslenskum farmönnum fari fækkandi. Það er mjög alvarleg staðreynd. Það er nú einu sinni þannig að íslensk þjóð reiðir sig á aðflutninga, sjóflutninga til og frá landinu, og því er mjög mikilvægt að íslensk þjóð sé ekki einvörðungu háð erlendu vinnuafli hvað þetta snertir. Auðvitað hljótum við að horfa til þess hvað þær þjóðir sem við berum okkur saman við hafa gert í þessum efnum. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi Færeyinga í því samhengi og jafnvel aðrar Norðurlandaþjóðir og það er mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld horfi til þeirra úrræða sem stjórnvöld þeirra ríkja sem við berum okkur saman við hafa gripið til á undanförnum árum.

Ég fagna sérstaklega þeim málflutningi sem hæstv. ráðherra viðhafði, að nú væri kominn ákveðinn samhljómur á meðal hagsmunaaðila í þessu máli. Því hlýtur spurning okkar hér að vera sú hvort stjórnvöld eigi ekki leik, hvort ekki sé kominn tími til að stjórnvöld sýni það frumkvæði ásamt hagsmunaaðilum að bæta starfsumhverfi íslenskrar kaupskipaútgerðar enda er það mikið hagsmunamál fyrir Ísland.