132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Snjómokstur.

427. mál
[16:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svar hans. Það er mjög gott svar að mínu mati að snjómokstursreglur verði endurskoðaðar við næsta útboð, ef ég hef skilið það rétt, sem er kannski á næsta vetri á þessari leið. Ég fagna því og tel að það sé gott.

Vegurinn yfir Vopnafjarðarheiði er 40 km einbreiður vegur uppi á fjalli, hár og mjög slæmur, þ.e. leggurinn frá Norðausturvegi niður á Vopnafjörð, og viðhald hans hefur í raun og veru verið minnkað undanfarin ár vegna þess að það er verið að bíða eftir að umhverfismati verði lokið svo hægt sé að ákveða hvaða leið verður valin til að byggja upp nýjan veg, sem yrði þá væntanlega tekinn í notkun árið 2008 eða 2009. Það verður þá í fyrsta skipti sem almennilegu vegasambandi verður komið á við þennan fallega stað og Vopnfirðingar eiga það sannarlega inni hjá okkur að mínu mati, virðulegi forseti, að þarna verði settur upp sjö daga mokstur þó svo að sem betur fer hafi verið snjólitlir vetur undanfarið og vegurinn hafi því ekki verið mikið lokaður. En ég vek athygli á og ítreka að fólk sem fer þessa leið þarf auðvitað að treysta því að það sé sjö daga mokstur.

Ég lýsi yfir ánægju minni með þetta svar og vona að þetta verði til þess að þarna verði mokstur alla daga vikunnar frá Mývatni og til Egilsstaða og niður til Vopnafjarðar og ég get sagt að hæstv. ráðherra á stuðning minn allan fyrir að auka fé til vetrarviðhalds og vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. Þó svo það hafi verið að aukast undanfarin ár, sem er til mikillar fyrirmyndar eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þá má bæta það og ég hygg að allir þingmenn séu sammála um það.