132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri spurningu hvort það væri ásættanlegt að það væri þetta lágt hlutfall sem kæmi með hverjum nemanda en á þeirri spurningu minni hangir önnur. Hún er þessi: Hversu háar upphæðir greiða foreldrar í einkareknum grunnskólum alla jafna í skólagjöld á ári? Það er alveg augljóst að það yrðu foreldrar þessara barna sem þyrftu að borga það sem upp á vantar. Það er ekki ætlast til þess að sveitarfélögin fari að greiða raunkennslukostnað með nemendunum.

Ég spyr því: Hversu mikið er það sem foreldrarnir koma til með að þurfa að bæta við og hvernig réttlætir hæstv. ráðherra það að hér virðist verið að búa til farveg sem er eingöngu hugsaður fyrir þá foreldra sem hafa rúm fjárráð? Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hæstv. ráðherra meðvitað að reyna að innleiða stéttaskiptingu í íslenska grunnskóla með þessu ákvæði?