132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:22]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað þannig að þær prósentutölur sem hv. þingmaður spurði um eru engin vísindaleg nálgun, það ber að sjálfsögðu að játa. Eins og ég sagði áðan eru þær ekki hugsaðar á þann hátt að þær séu takmarkandi í sjálfu sér miðað við núverandi ástand heldur fyrst og fremst til að hafa áhrif á framtíðina, væntingar og ákvarðanir um hana. Ákvörðun um þær er m.a. tekin í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfðum um hámarkshlutdeild einstakra útgerða og þær eiga ekki að leiða til þess að menn þurfi að selja frá sér eða neitt þannig. Hv. þingmaður spurði: Af hverju ekki hámark í öðrum tegundum? Ástæðan er sú að við fórum yfir þetta á sínum tíma og okkur sýndist og það er þannig að samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum frá Fiskistofu er meiri dreifing í öðrum tegundum. Ég tel hins vegar alveg hugsanlegt að ræða það hvort setja eigi hámark í aðrar tegundir ef menn telja það nauðsynlegt til að tryggja það sem verið er að reyna að gera með þessu, þ.e. frekari dreifingu. Eins og staðan er í dag þá sýnist mér ekki vera sérstakt tilefni til þess.

Hv. þingmaður spurði hvort einhverjar útgerðir væru þegar komnar yfir þetta hámark. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef núna þá er ekki svo en ein útgerð er komin nokkuð nálægt þessu. En a.m.k. síðast þegar ég fékk upplýsingar þá var engin útgerð komin yfir þetta.

Spurt var hvort lög af þessu tagi gætu verið afturvirk og sem svar við því er eðlilegast að vísa til þeirra fyrirmynda sem við höfum í gildandi lögum varðandi hámarkið í heildaraflamarkinu. Gert er ráð fyrir því að Fiskistofa hafi það hlutverk að fylgjast með þessu — ég veit að Fiskistofa undirbýr núna að efla þá starfsemi sína — og jafnframt er gert ráð fyrir því að mönnum verði tilkynnt um þetta, menn fái síðan andmælarétt eins og eðlilegt er og hafi síðan nokkurn umþóttunartíma til að leiðrétta þetta eða laga þetta hjá sér þannig að menn fari ekki yfir þetta heildarmark.