132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Samningur um menningarmál.

428. mál
[12:56]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er eðlilegt að hér sé minnt á menningarsamning sem gerður var við Austurland fyrir þó nokkrum árum því að hann átti að vera tilraunaverkefni varðandi það hvernig best væri að koma þessum málum fyrir. Það liggur ljóst fyrir og í samræmi við það sem hæstv. ráðherra sagði að sá samningur og framkvæmd hans hefur tekist afskaplega vel og fjármagn sem hefur runnið til þessa málaflokks hefur stóraukist. Þess vegna er það auðvitað grátlegt að þetta skuli ekki hafa verið tekið upp við fleiri landshluta og Eyþing er auðvitað gott dæmi um þá sem eru búnir að bíða lengi.

En það var eitt sem hæstv. ráðherra sagði sem ég ætla að taka alveg sérstaklega undir: Það þarf að tryggja fjármagn til þessara hluta og það þarf auðvitað að líta á þá sem hluta af byggðamálum. Það er auðvitað alveg ljóst að byggðamál eiga heima miklum mun víðar en í einu ráðuneyti. Það eru því miður mistök sem hér voru gerð þegar byggðamál voru færð á einu bretti til iðnaðarráðuneytisins. Það er t.d. algerlega ljóst að menntamálaráðuneytið er líklega eitt stærsta byggðamálaráðuneytið hér og þess vegna er lykilatriði að byggðamál séu hjá forsætisráðuneytinu þannig að öll önnur ráðuneyti sitji við sama borð.