132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Málefni listmeðferðarfræðinga.

440. mál
[13:31]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykjavíkur norður, Kolbrún Halldórsdóttir, beindi til mín fyrirspurn um það annars vegar hvenær vænta megi þess að endurskoðun laga um heilbrigðisstéttir ljúki og hins vegar hvers sé að vænta varðandi löggildingu listmeðferðarfræðinga, viðurkenningu náms þeirra eða leyfi til að nota heiti starfsstéttarinnar.

Undanfarin ár hefur verið unnið að endurskoðun ýmissa laga um heilbrigðisstéttir, bæði að nýrri heildarlöggjöf um þær svo og að endurskoðun og lagfæringum á þeim lögum og reglugerðum um einstakar stéttir sem brýnt hefur þótt að lagfæra. Má sem dæmi nefna breytingar á lögum um sjóntækjafræðinga og lífeindafræðinga sem áður hétu meinatæknar. Einnig er væntanlegt frumvarp til laga um sálfræðinga en lögin um þá eru komin til ára sinna og mikilvægt þykir að endurskoða þau.

Vinna við frumvarp til heildarlaga um heilbrigðisstéttir hefur ekki þótt eins brýn og því orðið að víkja fyrir annarri lagasmíð sem stendur yfir núna um einstakar stéttir auk þess sem sú vinna hefur tafist vegna umfangsmikillar vinnu við frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu og frumvarp til laga um landlækni.

Hvað varðar löggildingu listmeðferðafræðinga vil ég taka fram að verulega hefur dregið úr löggildingu nýrra stétta með laga- og reglugerðarsetningu. Ástæðan er sú að löggilding nýrrar stéttar er í raun einkaréttur þess hóps á starfssviði og starfsheiti. Það getur því takmarkað rétt annarra til að starfa innan þess sviðs sem hefur verið löggilt. Vegna þess hafa orðið árekstrar og geta orðið milli stétta sem hafa líkt starfssvið eða starfsvið skarast.

Innan heilbrigðisþjónustunnar er list og listsköpun notuð sem hluti af meðferð bæði af listmeðferðarfræðingum og öðrum sem ekki hafa hlotið menntun sem listmeðferðarfræðingar. Nám listmeðferðarfræðinga er því viðurkennt þó það sé ekki sérstök formleg viðurkenning og listmeðferðarfræðingar geta notað heiti starfsstéttarinnar þó þeir hafi ekki einkarétt á því.

Ég vil að lokum taka það fram að ekki verður efast um að störf listmeðferðarfræðinga á heilbrigðisstofnunum eru mikilvæg enda starfa þeir innan heilbrigðisþjónustunnar á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum fyrir langveik börn, hjúkrunarheimilum fyrir aldraða og geðdeildum og öðrum meðferðarstofnunum ásamt öðrum, t.d. iðjuþjálfum og myndlistarmönnum sem nota listsköpun sem meðferð þó ekki flokkist það sem listmeðferð með sama hætti og listmeðferðarfræðingar sinna.

Það er stefna ráðuneytisins að í framtíðinni verði ákvörðun um löggildingu nýrra heilbrigðisstétta einkum byggð á því að löggilding sé nauðsynleg með tilliti til öryggis sjúklinga fremur en hagsmuna starfsstétta.