132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:50]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Árangursríkar aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu þurfa auðvitað að beinast bæði að framboðs- og eftirspurnarhliðinni og þar með talið þurfa þær að beinast að meðferðarúrræðum fyrir þá sem hafa ánetjast fíkniefnum. Það er einmitt það svið sem hæstv. heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á en hann ber aðeins ábyrgð á því sviði að því marki sem meðferðaraðilar teljast til heilbrigðisstofnana, sem eru ekki allir.

Mér finnst rétt að árétta þetta, frú forseti, í þessari umræðu vegna þess að málshefjandi umræðunnar, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, hefur sannarlega fært hæstv. ráðherra fangið fullt með viðamiklum spurningum, sem ráðherra hefur heilar fimm mínútur til að svara, og ná í raun yfir verk og ábyrgðarsvið minnst fjögurra ráðuneyta. Við höfum verið að ná árangri með víðtækum aðgerðum gegn fíkniefnaneyslu, ekki bara þær sem tollgæsla og lögregla hafa sýnt fram á, og hv. málshefjandi vakti athygli á því magni sem þeim hefur tekist að koma höndum yfir, heldur höfum við náð árangri í forvörnum líka og við höfum náð árangri þar sem við höfum lagt mesta áherslu, þ.e. meðal barna á grunnskólaaldri. Niðurstöður rannsókna sem hæstv. ráðherra nefndi áðan og Lýðheilsustöð hefur staðið fyrir sýna þetta svart á hvítu.

Í þessu samhengi tel ég tvennt vega þyngst í forvörnunum og þeim árangri sem við höfum náð. Annars vegar er það svokölluð jafningjafræðsla þar sem þeir sem í henni starfa beina sjónum sínum að félagahópnum, og hins vegar starf sem miðar að því að styrkja foreldra í hlutverki sínu, af því að foreldrar eru bestir í forvörnum. Verkefni stjórnvalda er fyrst og fremst að styrkja umhverfi fjölskyldunnar og styðja við störf lögreglu, frjálsra félagasamtaka og annarra sem hvetja og styðja foreldra og sýna foreldrum fram á mikilvægi þeirra í þessu og sýna þeim fram á hvað það er sem skiptir mestu máli. Það er samstarfið við skólann, það er tíminn með börnunum, ást, virðing og aðhald. Það er þetta sem hefur sýnt sig að vega þyngst í því að byggja upp einstaklinga með gott sjálfstraust og (Forseti hringir.) sterka sjálfsvirðingu og það eru þeir eiginleikar sem börn þurfa til að sleppa klakklaust í gegnum grunnskólann.