132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum að mér skilst, og vonandi fer ég rétt með, samtímis og í einu lagi tillögur til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 og síðan skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Ég hef aðeins blaðað í þessum pappírum og skoðað þetta. Margt af þessu er nú kunnuglegt. Við höfum svo sem rætt þetta áður og ég hef lent í því. En tillagan til þingsályktunar á þingskjali 473, um stefnumótandi byggðaáætlun, er mikill og merkur pappír ef svo má segja, í 23 liðum. Talað er um að skilgreindar hafi verið 23 aðgerðir. Ræðutími minn í þessari fyrri ræðu minni er aðeins 15 mínútur, mér gefst því ekki kostur á að fara yfir alla þessa liði, a.m.k. í fyrri ræðu minni.

Mig langar aðeins í upphafi máls míns að koma inn á tvo liði sem talað er um sem mikilvæga í því að efla byggð í landinu. Það er 5. liður, söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra gagna um byggðaþróun. Á þessu ári á víst að skipuleggja markvissa söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra gagna um byggðaþróun svo að reglubundin söfnun og úrvinnsla geti hafist hjá Byggðastofnun í upphafi árs 2007. Síðan er í 7. lið talað um að framkvæma eigi einhverja athugun á stöðu byggðarlaga sem búa við viðvarandi fólksfækkun. Og þá er hér sagt, með leyfi forseta:

„Gerð verði athugun á stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun. Styrkleikar þeirra og veikleikar verði metnir og greindir möguleikar til eflingar byggðarlaganna.“

Þetta er óskaplega kerfiskarlalegt málfar og einhvern veginn er þannig bragur á þessu að manni finnst þetta allt saman vera óskaplega þungt í vöfum og þarna sé verið að eyða dýrmætum tíma í eintómt kjaftæði. Því að mér finnst ekki eiga að þurfa að ráða hámenntaða sérfræðinga til að sjá hvert leiðin liggur hjá mörgum byggðarlögum hér á landi þessar stundir og mörg undanfarin ár. Ekki þarf að efna til ítarlegra rannsókna eða greininga sem kosta fullt af peningum til að komast að því að hér er ástandið alls ekki nógu gott og það verður að grípa til aðgerða, ekki seinna en strax.

Ef við skoðum þingsályktunartillöguna áfram, þ.e. athugasemdirnar við hana, er talað m.a. um mannfjölda og störf á bls. 33 í 2. kafla. Þar er greint frá því að fólksflutningar til höfuðborgarsvæðisins frá öðrum landshlutum hafi haldið áfram á síðustu árum eins og þeir hafa reyndar gert mjög lengi. Þó að landsmönnum hafi fjölgað úr tæplega 270 þúsund frá árinu 1995 í 300 þúsund núna eða um 10%, þá hefur íbúum fjölgað um það bil 16% á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi um tæp 10%, Vesturlandi 2%, Suðurlandi 5% og á Norðurlandi eystra hefur mannfjöldinn nánast staðið í stað. Hins vegar sjáum við að fólksfækkun hefur orðið á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og síðan á Austurlandi. Þetta eru allt saman meðaltalstölur. Á sumum stöðum hefur ástandið kannski verið miklu verra en þetta heldur alltaf áfram. Þetta er ekkert að lagast. Sumir staðir eru hreinlega illa staddir og nú síðast eru undarlegir hlutir að gerast, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi reynt að spyrna kannski við fótum einhvers staðar, reynt að standa í ístaðinu og stöðva og hafa áhrif á þá þróun, til að mynda með uppbyggingu á Austurlandi sem ég ætla svo sem ekki að fara að gera lítið úr.

Í skýrslunni segir að með raforkuveri við Kárahnjúka og samningum um byggingu álvers á Reyðarfirði hafi verið stigið eitt stærsta spor sem stigið hefur verið á síðari árum til að bæta lífskjör og afkomumöguleika fólks og fyrirtækja á Austfjörðum, en þaðan hafi fólksflutningar verið einna mestir á undanförnum árum. Það er reyndar ekki alveg rétt. Íbúum hefur fækkað hlutfallslega miklu meira á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra ef marka má bls. 33 í sömu skýrslu. Fólksfækkunin frá 1995 til 1. desember 2004 var 14,6% á Vestfjörðum, á Norðurlandi vestra var hún 12% en fækkunin var ekki nema 2,7% á Austurlandi þannig að þetta er ekki alveg sannleikanum samkvæmt.

Í skýrslunni segir að þessi framkvæmd hafi þegar haft mjög mikil áhrif á atvinnuástand og tekju- og íbúaþróun á Austurlandi þótt hún sé nýlega hafin. Í gær bárust nýjar tölur um búferlaflutninga árið 2005 frá Hagstofunni. Það mjög vönduð samantekt sem hægt er að nálgast á vef Hagstofunnar. Ef maður skoðar breytingar á mannfjölda og búferlaflutninga fólks á milli landa og jafnvel landshluta kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Ef við skoðum flutningana innan lands þá kemur í ljós að brottfluttir Austfirðingar eru fleiri en aðfluttir.

Nú ber svo vel í veiði að hæstv. iðnaðarráðherra, byggðamálaráðherra og viðskiptaráðherra, er í salnum og heyrir mál mitt. Mér þætti fróðlegt að fá að heyra skýringu ráðherrans á þessu. Hvað er að gerast? Hvernig stendur á því, þrátt fyrir hinar miklu og glæsilegu framkvæmdir, að fólk flytur frá Austfjörðum? Hér hefur okkur verið sagt í ótal ræðum, m.a. hæstv. ráðherra, að stórkostlegir hlutir hafi gerst á Austurlandi. En nú berast nýjar tölur frá Hagstofunni sem sýna að eitthvað mjög undarlegt hefur gerst, að þar er eitthvað skrýtið í gangi. Virðulegi forseti, við verðum að fá þá skýringar á þessu. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að hafa skýringar á reiðum höndum. Þetta er í hennar kjördæmi og hefur verið henni mjög mikið hjartans mál. Hún hlýtur að vita hvað er að gerast.

Hæstv. ráðherra hlýtur líka að geta frætt okkur um hvernig mannfjöldi hefur breyst á Austurlandi. Austfirðingar virðast flytja á brott en í staðinn flæða útlendingar inn á svæðið. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Til hvers voru refirnir skornir? Var farið út í þessar stórkostlegu framkvæmdir á Austurlandi til að bæta búsetuskilyrði fyrir útlendinga sem flytjast til landsins? (Gripið fram í: Er þér verra við þá?) Útlendingar eru ekkert verri en aðrir. Ég hef ekkert á móti útlendingum. Þetta hefur ekkert með kynþáttafordóma að gera. Það sem vakti fyrir okkur með þessum framkvæmdum var að búa í haginn fyrir okkur Íslendinga. Ég hélt að við værum að fórna landinu okkar fyrir okkur sjálf. Ég hélt að það hefði verið megininntakið í réttlætingunni fyrir þessum framkvæmdum.

Virðulegi forseti. Með orðum mínum vil ég ekki gera lítið úr framkvæmdunum, alls ekki. Ég spyr hins vegar hérna ákveðinna sem ég tel rétt að við fáum svör við. Ég held að hlutirnir fari ekki alveg eins og lagt var af stað með.

Við getum skoðað nýjar tölur frá Hagstofunni til að sjá stöðuna á Vestfjörðum. Þar eru brottfluttir umfram aðflutta á síðasta ári, bara á síðasta ári 185 manns, tæp 200 manns samkvæmt opinberum skýrslum. Sennilega eru þeir fleiri. Oft er fólk flutt brott frá landsfjórðungum sem á við vandræði að etja en er kannski enn þá skráð þar með lögheimili. Tölurnar eru því sennilega hærri en koma fram í skýrslum Hagstofunnar. En þarna eru farnir tæplega 200 bara á einu ári, blóðtakan hefur verið mjög mikil í sumum byggðarlögum. Brottfluttir umfram aðflutta í Vesturbyggð voru t.d. 60 manns. Í Ísafjarðarbæ eru brottfluttir umfram aðflutta 41. Ef við skoðum Tálknafjörð þá er þar mjög mikil blóðtaka, þ.e. brottfluttir umfram aðflutta í þessu litla þorpi eru 27 manns á einu ári. Hólmavíkurhreppur, þar munar um 20 manns í mínus. Til Bolungarvíkur fluttust 73 en 90 manns fluttust á brott. (Gripið fram í.) Það eru 17 manns í mínus.

Fólksflutningar til og frá eru miklir. Alvarlegast í því er að fólkið er að fara. Hvers vegna skyldi það vera? Mér finnst ekki erfitt að svara því. Ég held að það sé að mörgu leyti byggðastefnu ríkisstjórnarinnar að kenna, t.d. með Vestfirði. Ríkisstjórnin hefur nánast markvisst grafið undan þeim landshluta með óþarfa og arfavitlausum lagasetningum sem kýldar hafa verið í gegn á þessu kjörtímabili. Við í stjórnarandstöðunni höfum varað við þeim, ekki síst minn flokkur, Frjálslyndi flokkurinn. Á það hefur ekkert verið hlustað og nú fáum við reikningana, m.a. í formi þessara talna frá Hagstofunni. Mér finnst þetta ekki mikið til að hrósa sér yfir. Í raun er þetta afskaplega slæmt og alvarlegt mál.

Það skiptir engu máli þótt að á hinu háa Alþingi séu lagðar fram þingsályktunartillögur, upp á 70 blaðsíður og síðan skýrsla upp á 30–40 síður um byggðaáætlun og stefnumótun í byggðaáætlun fyrir næstu árin, meðan byggðunum er að blæða út. Sumum byggðum hér á landi fossblæðir hreinlega, þeim blæðir út í þessum töluðu orðum.

Ég ætlaði að taka fyrir tiltekna byggð í ræðu minni. Hins vegar er svo langt liðið á hana að ég tími ekki að byrja á því. Ég ætla frekar að taka hana fyrir í seinni ræðu minni. Það er byggðarlag sem tilheyrir kjördæmi mínu, Suðurkjördæmi, þ.e. Vestmannaeyjar. Ég hef fyrir framan mig mjög alvarlegar tölur sem sýna þróunina þar. En ég ætla að koma inn á það í seinni ræðu minni. Seinni ræða mín mun lúta að Vestmannaeyjum eingöngu. Þar eru á ferðinni mjög alvarlegir hlutir sem ég hef því miður ekki heyrt hæstv. byggðamálaráðherra tala hátt um.

Ég hygg að við ættum að ræða þessi mál af mikilli alvöru á hinu háa Alþingi. Hvernig stendur á því að svona undarlegar tölur birtast okkur frá Austurlandi? Getur verið að það sé vegna þess að byggðastefna stjórnvalda hafi beðið skipbrot? Náum við ekki þeim árangri sem við stefndum að? Hvernig stendur á því að fólki fækkar svo mikið á Vestfjörðum? Jafnvel í byggðarlögum eins og Bolungarvík, sem maður hefði haldið að ætti að ná vopnum sínum á nýjan leik, virðist líka fjara undan. Það gerist meira að segja í Ísafjarðarbæ. Ég hef ekki skoðað staði eins og Siglufjörð, ég get kannski, meðan ég bíð eftir að komast aftur í ræðustól, skoðað hvernig þróunin hefur verið þar síðasta árið. Ég á ekki von á að fólki hafi fjölgað á Siglufirði á síðasta ári og ekki heldur á Ólafsfirði. Ég held að þar hafi því frekar fækkað.

Annað í þessum tölum, virðulegi forseti, er alvarlegt. Ég sé að þetta eru mjög góðar og vandaðar samantektir á vef Hagstofunnar. Það er hægt að rýna í tölurnar og greina með tiltölulega auðveldum hætti. Ég hvet alla þingmenn til þess, a.m.k. að skoða eigin byggðarlög og kjördæmi. Það er auðveldlega hægt að skoða þetta. En á mörgum stöðum sér maður að það er ekki nóg með að fólki sé að fækka heldur er aldurssamsetningin á stöðunum líka að breytast. Hún breytist mjög hratt. Meðalaldurinn hækkar hratt. Það dregur hratt úr barnsfæðingum á þessum stöðum og unga fólkinu fækkar hlutfallslega langmest, þ.e. fólki sem er yngra en fertugt, sem á að vera burðarásarnir í þessum byggðarlögum, sem eignast börnin og byggir upp staðina, fólkið sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Hvernig stendur á því að okkur tekst illa að halda ungu fólki á þessum stöðum? Mér finnst að mörgu leyti miklar þversagnir fólgnar í þessu. Ég segi það fyrir mitt leyti, sem faðir ungra barna, að þessir staðir úti á landi búa yfir miklum kostum, t.d. fyrir barnafólk. Þar hafa verið byggðir flottir skólar og byggð upp fín dagvistun. Það eru ágæt sjúkrahús víða um allt land og búið að byggja allan þennan strúktúr og ágætis húsnæði. Það er stórkostlegt fyrir börn að alast upp á svona stöðum. En samt er eitthvað sem gerir það að verkum að fólk vill ekki búa þar. Hver skyldi ástæðan vera fyrir því?

Virðulegi forseti. Tíminn í fyrri ræðu minni er á þrotum. Ég ætla að ganga úr ræðustól með þessa spurningu hangandi í loftinu: Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að okkur virðist mistakast svo hrapallega í því að byggja landið okkar? Vandinn er ekki alls staðar á landsbyggðinni, alls ekki, en allt of víða.