132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:32]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðari spurningu þingmannsins í fyrra andsvari sínu er það sama spurningin sem hann bar hér fram við mig í síðustu viku og ég er búinn að svara. Mér finnst eiginlega óþarfi að veita sama svarið. Það liggur fyrir. Í öðru lagi hvað varðar fólksfækkun í Bolungarvík hygg ég að stærsta skýringin á fækkun á síðasta ári sé sú að Ratsjárstofnun dró saman seglin, sagði upp einum fimm tæknimönnum sem eru farnir frá staðnum ásamt fjölskyldum sínum. Þannig að því miður varð samdráttur á því sviði til að fólki fækkaði töluvert í Bolungarvík.

Varðandi hvort þessi aðgerð á Austurlandi sé að mistakast vegna þess að Íslendingum sé ekki að fjölga núna, eða jafnvel að fækka, held ég að sé ekki hægt að slá því föstu vegna þess að við erum á framkvæmdatíma en ekki komin á starfstíma álversins. Það hefur alltaf verið gert ráð fyrir að fólksfjölgunin sem yrði á miðju Austurlandi yrði vegna reksturs fyrirtækjanna, fyrst og fremst álversins og síðan annarra fyrirtækja sem verða til í kringum það í afleiddum störfum. Það er auðvitað ekki komið til þess á þessum tímapunkti svo það er of snemmt að slá nokkru föstu um að eitthvað hafi mistekist í þeim efnum. Ég er ekki viss um að það muni gerast. Þvert á móti veit ég ekki annað en þau störf sem verða þarna í boði séu talin mjög eftirsóknarverð og Íslendingar muni sækjast eftir að vinna þau. Þannig að þær upplýsingar, eða það sem maður sér úr fréttum um mat Íslendinga á þeim störfum styrki það að þær áætlanir sem menn höfðu um það muni ganga eftir.