132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:46]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Hér er hreyft merkilegu máli. Rétt er í því samhengi að minna á að ein af tillögum nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins var einmitt sú að færa framhaldsskóla yfir til sveitarfélaga og var því beint til ríkisstjórna og sveitarstjórna sem lengri tíma verkefni.

Í þeirri vinnu, ef ég man rétt, kom fram að í raun bannaði ekkert í lögum að sveitarfélög tækju við slíku enda höfum við dæmi um að ríkisvaldið hafi gert samning við einkaaðila meira að segja um rekstur framhaldsskóla. Nægir þar að benda á Verslunarskóla Íslands. En hér er auðvitað verið að tala um sveitarfélög. Ég er fylgjandi þessu vegna þess að í prinsippinu hef ég trú á að nærþjónustan eigi að vera sem mest hjá sveitarfélögunum. Ég tel að þetta muni auka sjálfstæði, metnað og sveigjanleika í framhaldsskólanum. Það mun auka ábyrgð heimamanna og metnað gagnvart öflugu skólastarfi og mun jafnframt stuðla að auknum fjölbreytileika.

Mig langar í lokin að varpa því til hæstv. ráðherra hvort ráðherrann mundi hafna slíkri (Forseti hringir.) beiðni ef hún kæmi frá einhverju sveitarfélagi.