132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Endurgreiðslur öryrkja til Tryggingastofnunar ríkisins.

467. mál
[14:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Mikil óánægja hefur verið með það hjá lífeyrisþegum hvernig staðið hefur verið að kröfu á hendur þeim varðandi endurgreiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiðslu lífeyrisgreiðslna. Endurgreiðslukrafan á öryrkjana og lífeyrisþegana nemur háum fjárhæðum og er ekki óalgengt að heyra endurgreiðslukröfur upp á nokkur hundruð þúsund og yfir eina milljón á einstaka lífeyrisþega. Þessar endurgreiðslukröfur hafa verið lífeyrisþegunum mjög erfiðar og margir eru við að gefast upp og ráða ekkert við þessar endurgreiðslur, en Tryggingastofnun hefur heimild til að endurkrefja þá þannig að einungis standi eftir 20% af lífeyrisgreiðslu viðkomandi ellilífeyrisþega. Er furðulegt hve hart er hér gengið fram þegar í reglugerð fjármálaráðuneytisins um launaafdrátt er kveðið á um að launþegi haldi alltaf eftir 25% af heildarlaunagreiðslum þrátt fyrir að launþegi sé í skuld við ríkissjóð vegna opinberra gjalda en þegar um er að ræða lífeyrisþega og þessar ofgreiðslur þá er einungis miðað við 20%.

Það segir sig sjálft að ekki er forsvaranlegt að skilja fólk eftir með framfærslu upp á kannski 10–20 þús. kr. á mánuði í langan tíma, en endurgreiðslan tekur oft mjög langan tíma þegar endurgreiðslukrafan getur skipt hundruðum þúsunda eða jafnvel einni milljón eða meira. Það er líka svo að um er að ræða bæði vangreiðslur og ofgreiðslur til lífeyrisþega hjá Tryggingastofnuninni. Maður veltir fyrir sér í þeirri tæknivæðingu sem við lifum í hvort ekki sé hægt að koma í veg fyrir að slíkt gerist og maður spyr: Hver ber ábyrgðina? Bera lífeyrissjóðirnir ábyrgð á því að Tryggingastofnun fær ekki upplýsingar um greiðslur frá lífeyrissjóðum til sjóðfélaga? Er það skattkerfið eða hverjir bera ábyrgð? Það þarf að taka á því þegar í stað að slíkt gerist ekki aftur. Það þarf líka að taka á þeim ofgreiðslum sem lífeyrisþegarnir standa frammi fyrir nú og eiga enga möguleika á að greiða nema skuldsetja sig verulega eða eiga ekki fyrir allra brýnustu framfærslu í langan tíma. Hér ætti hreinlega við, virðulegi forseti, að beita pennastriksaðferðinni á þessar skuldir og afskrifa þær að verulegu leyti, því það er ekki síst við kerfið sjálft að sakast að upplýsingastreymi til Tryggingastofnunar um aðrar tekjur eða greiðslur til lífeyrisþega er ekki betra en þetta. Ástæða þessarar endurkröfu, sem fjöldi lífeyrisþega stendur nú frammi fyrir, má að verulegu leyti rekja til þeirra miklu tekjutenginga sem eru á lífeyrisgreiðslum, sem eru afar óréttlátar og óskynsamlegar. Væri fróðlegt að vita hjá hæstv. ráðherra hvers megi vænta í því að dregið verði úr skerðingarhlutföllum lífeyrisgreiðslna. Ég hef því lagt fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra í fjórum töluliðum. Heilbrigðisráðuneytið hafði samband við mig og í samráði við mig voru töluliðir 1 og 2 umorðaðir þar sem Tryggingastofnun taldi erfitt að svara til um meðaltalið á hvern öryrkja eða hversu langan tíma endurgreiðslan tæki. Á ég því von á að ráðherrann svari fyrstu tveim töluliðunum í samræmi við það. Ég hef ekki tíma til að fara yfir 3. og 4. tölulið en vænti þess að hæstv. ráðherra svari þeim.