132. löggjafarþing — 68. fundur,  15. feb. 2006.

Tenging Sundabrautar við Grafarvog.

[16:00]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör og sömuleiðis fyrir góða umræðu. Ég get ekkert annað skilið, virðulegi forseti, en að sátt sé í þessum þingsal um að fara út í þessa framkvæmd. Það olli mér hins vegar vonbrigðum að hlusta á þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Hér var sagt að þetta þætti fyndið af því þetta tengist Reykjavík og hér var talað um botnlanga í einu hverfi borgarinnar. Bara til að upplýsingar fyrir þessa landsbyggðarþingmenn, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þá búa nærri 20 þúsund manns í þessu hverfi sem hér var talað niður til í Reykjavík. Þetta fólk hefur rétt. Ég hef oft sinnis verið skammaður fyrir það, virðulegi forseti, af hálfu Samfylkingarinnar að taka upp málefni Reykjavíkur í þessum sal. En mér er nákvæmlega sama. Þetta eru líka kjósendur. Þeir hafa líka rétt í okkar landi og það skal svo sannarlega, meðan ég er hér, verða tekið tillit til hagsmuna þeirra og þessi mál tekin upp.

Það er bara þannig að í engu sveitarfélagi í hinum góðu kjördæmum þessara þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna eru jafnmargir íbúar og þessu ágæta hverfi. Ég ætla samt sem áður ekki að tala niður til þessara góðu staða og íbúa sem þar (Gripið fram í.) búa og ég vona að það verði aldrei.

Hér standa upp úr góðar yfirlýsingar hæstv. samgönguráðherra og þær voru mjög skýrar. Hann kveður hér skýrt á um það að vel komi til greina að fara út fyrir Hamarinn og sömuleiðis að færa Hallsveg, sem er algjör nauðsyn, frá Hamrahverfi. Og það er byrjað að undirbúa seinni áfangann.

Af því hv. þm. Helgi Hjörvar flutti hér ákveðinn skemmtiþátt eins og sá ágætis þingmaður gerir oft þá vil ég hvetja hann til þess, þar sem hann er fyrsti varaborgarfulltrúi R-listans — og ég hef ekki farið hér í að gagnrýna seinagang á þeim bæ — en ég vil hvetja hann til þess að ýta þessu samráðsferli af stað. Það átti að fara í þetta á fleygiferð í byrjun nóvember, í byrjun nóvember. Það hefur ekkert gerst. Það hefur ekki verið haldinn neinn einasti fundur. Ég vil nota tækifærið og hvetja Samfylkingarmenn (Forseti hringir.) og Vinstri græna að sjá til þess að þessi mál hreyfist þannig að við sjáum þessa mikilvægu framkvæmd verða að veruleika.