132. löggjafarþing — 68. fundur,  15. feb. 2006.

Tenging Sundabrautar við Grafarvog.

[16:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það var nokkuð fróðlegt að heyra ræðu hv. þm. Helga Hjörvars um Sundabrautina. Ég held að hann hafi haldið hana í fjórða skiptið. Eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, þá er það sama skemmtiatriðið trekk í trekk. En það sem vekur athygli mína er hversu illa hv. þm. Helgi Hjörvar er upplýstur um þetta mál nema að hann hafi talað algjörlega þvert um hug sér og gegn vitneskju sinni. Það er mjög alvarlegt þegar hv. þingmenn sem eiga að þekkja vel til, koma hingað upp og fara með rangindi, ósannindi. Það tel ég að þjóni ekki tilgangi málefnalegrar umræðu hér.

Staðreynd máls í sambandi við Sundabraut er þessi: Við afgreiddum samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008. Staða undirbúnings var þá eins og hún var og hv. þingmenn þekkja. Við settum þá fjármuni inn í samgönguáætlunina sem var talið að þyrfti til að geta unnið að undirbúningi fullum fetum. Það hefur verið gert. Það var vitað fyrir fram og var samkomulag á milli stjórnarflokkanna að fjármunir yrðu settir í Sundabrautina við endurskoðun á samgönguáætluninni í kjölfar sölu Símans. Það eru því engin ný tíðindi að ákvarðanir voru teknar um að nýta sölu Símans til að ganga til verka í stórum samgönguframkvæmdum eins og Sundabrautinni. Þess vegna liggur það fyrir, virðulegur forseti, að við munum nýta fjármuni vegna sölu Símans til að leggja Sundabrautina. Staðreyndin er hins vegar sú að borgaryfirvöld hafa ekki lokið sinni undirbúningsvinnu og allt tal um að samgönguráðherra standi á bremsunni er rangt. Það er rangt að það standi á Vegagerðinni við undirbúnings þessa verks. Skipulagsþátturinn liggur ekki fyrir og það er borgin sem fer með þau mál. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn eins og Össur (Forseti hringir.) Skarphéðinsson ættu að kynna sér þetta. Þá gæti hann leiðbeint (Forseti hringir.) ágætum (Gripið fram í.) þingmönnum eins og Helga Hjörvar. (Gripið fram í.)